133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig geta lýst því yfir fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að við komum ekki til með að leggja stein í götu þessa máls á Alþingi Íslendinga þannig að við komum til með að standa með hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins í því að reyna að koma þessu máli í gegn. Ég fagna þeim stuðningi sem við höfum heyrt í þingsölum við þetta mál frá hv. stjórnarliðum, þeim hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur og Arnbjörgu Sveinsdóttur. Við vitum það, eins og hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sagði í ræðu sinni, að allar þær lausnir sem heyrnarlausir hafa þurft að búa við í sínum málum á undanförnum 13 árum hafa verið bráðabirgðalausnir. Þar hafa tveir hæstv. ráðherrar beitt sér, fyrrverandi hæstv. ráðherra Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og svo hefur hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, líka lagt lóð á vogarskálarnar. Þau lóð hafa bæði verið þeirrar náttúru að þau hafa ekki komið málunum alla leið. Þetta mál kæmi málefnum og réttarstöðu heyrnarlausra í höfn og þess vegna er núna tækifæri fyrir þá þingmenn sem vilja beita sér í stjórnarflokkunum að fylgja málinu þannig eftir að það verði gert að lögum hér í vor.