133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.

Núgildandi sóttvarnalög tóku gildi 1. janúar 1998 og voru þau mikilvægt skref í þá átt að gera stjórnsýsluna í landinu færari um að takast á við heilbrigðisvá en áður hafði verið. Frá gildistöku laganna hafa hins vegar orðið miklar breytingar á viðhorfum til sóttvarna og heilbrigðisógnar og hafa á undanförnum árum verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum, m.a. vegna alvarlega faraldra sem komið hafa upp hér á landi.

Á alþjóðavettvangi hefur einnig orðið mikil breyting á viðhorfi vegna heilbrigðis- og öryggisógnar á borð við alnæmi, bráðalungnabólgu, heimsfaraldurs inflúensu og mögulegra hryðjuverka þar sem sýkla-, eiturefna- og geislavopnum kann að vera beitt. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist við þessu m.a. með því að stofna sóttvarnastofnun Evrópu og með nýrri alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem tekur gildi 15. júní 2007. Þessi reglugerð hefur áhrif á íslenskt laga- og reglugerðaumhverfi.

Megintilgangur frumvarps þess sem ég mæli hér fyrir er að breyta gildissviði sóttvarnalaganna til samræmis við nýju alþjóðaheilbrigðisreglugerðina. Eldri heilbrigðisreglugerð miðaðist eingöngu við tiltekna hættulega smitsjúkdóma sem ógnað gátu heimsbyggðinni. Markmið nýju alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar er að koma í veg fyrir eða að draga úr afleiðingum og útbreiðslu sjúkdóma, hvort sem rekja má þá til smitsjúkdóma eða eiturefna og geislavirkra efna sem breiðast út af náttúrulegum ástæðum, slysni eða ásetningi.

Í frumvarpinu er enn fremur lögð til breyting á stjórnsýslustöðu sóttvarnalæknis. Samkvæmt gildandi sóttvarnalögum ber landlæknisembættið ábyrgð á framkvæmd sóttvarna og þar segir jafnframt að við embættið skuli starfa sóttvarnalæknir sem beri ábyrgð á sóttvörnum. Ég tel þessi ákvæði óskýr hvað varðar stjórnsýslustöðu sóttvarnalæknis, stjórnunarheimildir landlæknis og ábyrgð á lögbundnum verkefnum sóttvarnalæknis. Því tel ég eðlilegt að kveða með ótvíræðum hætti á um stjórnsýslustöðu sóttvarnalæknis. Í frumvarpinu er því lagt til að embætti sóttvarnalæknis beri ábyrgð á sóttvörnum undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst að skýra stjórnsýslu og skilja að eftirlit og framkvæmd. Þessi breyting er einnig í samræmi við þá stefnu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að flytja sem mest af rekstrarverkefnum frá landlæknisembættinu og efla eftirlitshlutverk embættisins.

Með þeim breytingum verður staða landlæknis gagnvart sóttvarnalækni sú sama og staða landlæknis gagnvart öðrum læknum og öðrum stofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu, þ.e. að hann hefur eftirlit með því að sóttvarnalæknir uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar og getur krafið hann um þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar vegna þessa eftirlits. Eftirlitshlutverk landlæknis gagnvart sóttvarnalækni breytist því ekki. Hann verður eftir sem áður háður faglegu eftirliti landlæknis eins og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu. Í frumvarpinu felast engar breytingar á stöðu og hlutverki sóttvarnalæknis og landlæknis á sviði almannavarna.

Hæstv. forseti. Í ræðu minni hef ég farið í stórum dráttum yfir aðdraganda þess að ég legg fram frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum. Megintilgangur breytinganna er að aðlaga sóttvarnalögin og sóttvarnareglugerðir að alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni. Einnig er rétt og eðlilegt að skýra með ótvíræðum hætti stjórnsýslustöðu sóttvarnalæknis.

Ég tel eðlilegt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar til 2. umr.