133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:22]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi einungis bregðast við þeim orðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hann vék að fyrr í ræðu sinni um afstöðu einstakra þingmanna í Framsóknarflokknum. Þar þykir mér hann hræra áfram í þessum potti en það sem ég hef alltaf sagt í þessari umræðu er að ég hef verið að mótmæla því að þegar menn ræða um málefni innflytjenda og málefni útlendinga skuli menn kjósa að nefna ætíð í sömu andrá hættu á sjúkdómum og sakavottorð. Ég er alveg sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að ég er bærilega sátt við með hvaða hætti þessum málum er háttað í dag þar sem vegna almannaheilla og vegna einstaklinganna sjálfra er farin sú leið að kanna heilsufar fólks af einstökum svæðum heimsins þar sem eru til að mynda berklar eða aðrir sjúkdómar en það á bara við svo lítinn hluta af þeim útlendingum og lítinn hluta af þeim innflytjendum sem hingað sækja og það tel ég að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson þekki.

Verklagsreglur sóttvarnalæknis eru með þeim hætti, ef ég þekki þær nógu vel, að kannað er heilsufar einstakra hópa frá sérstökum svæðum heimsins, mjög fárra til að mynda innan Evrópska efnahagssvæðisins en eins og hv. þingmenn vita koma langflestir þeirra útlendinga sem hingað sækja þaðan. Ég tel að við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson deilum að mörgu leyti sömu sjónarmiðum hvað þetta varðar en það sem ég hef gert athugasemd við er að menn skuli velja að nefna í sömu andrá innflytjendur og sjúkdóma. Þar með finnst mér að menn séu að ala á einhvers konar ótta í þeirra garð sem ég tel óþarft. Hvað hitt varðar þá held ég að við Kristinn H. Gunnarsson deilum sömu skoðunum.