133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:26]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit, ef hann hefur kynnt sér mál mitt, hef ég aldrei haldið því fram, og hef einmitt sérstaklega vandað mig við það, að hv. þingmaður, formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, hafi skoðanir sem kenna megi við rasisma. Ég hef aldrei sagt að Frjálslyndi flokkurinn hafi iðkað þær skoðanir vegna þess að ég held að Frjálslyndi flokkurinn hafi að mörgu leyti verið að lýsa umræðu sem á sér stað víða í samfélaginu.

Það sem ég hef sagt er að einstakir liðsmenn Frjálslynda flokksins, og þar get ég einmitt trúað að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson taki undir með mér, hafi gengið lengra en til að mynda hv. þingmaður og formaður flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson.

Það sem ég hef verið að vara við er að menn gangi ekki svo langt í umræðunni, og það sama á við um mig, að stimplanir séu á báða bóga þannig að við komumst ekkert áfram í málefnalegri umræðu um aðlögun innflytjenda og með hvaða hætti við högum þeim málum.

Ég hef reynt að vanda mig í þessari umræðu. Ég hef þó brugðist við þar sem mér hefur stundum fundist, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, að menn tali ætíð um málefni innflytjenda, útlendinga, með þeim hætti að nefna í sömu andrá kröfuna um sakavottorð og heilbrigðisvottorð. Við deilum sömu skoðunum, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu en mér finnst óþarft að þetta sé ætíð nefnt í sömu andrá. Það er svo margt annað sem við gætum verið að ræða í þessum efnum og ég vildi að við gætum stýrt umræðunni inn á þann vettvang.