133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að sú afstaða hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur liggi fyrir að gagnrýni sem hún hefur sett fram beinist ekki að formanni Frjálslynda flokksins. Það liggur þá fyrir og þarf ekki að deila um það.

Það kann að vera að einhverjir aðilar sem hafa tekið þátt í umræðunni sem einstaklingar hafi látið einhver orð falla þar sem henni finnst of langt gengið. Ég get ekki svarað fyrir það. Ég get hins vegar haft skoðun á því ef þingmaðurinn lýsir þeim ummælum þannig að ég geti vegið þau og metið en ég held að þingmaðurinn verði þá að gera grein fyrir þeim ummælum og hverjir hafa látið þau falla þannig að við getum rætt þau. Ég vil alla vega segja það, ég hef að vísu ekki fylgst með öllu sem sagt hefur verið um þessi mál síðan í haust, að ég man ekki eftir neinu sem hefur stungið mig í umræðunni á þann veg að ég álíti einhvern einstakling í umræðunni uppfullan af rasisma. Ég held ekki. Jafnvel þó að ég sé ekki sammála honum fyndist mér ósanngjarnt að bera það á nokkurn mann. Ég held að enginn Íslendingur sé þeirrar skoðunar sem slíkt orð endurspeglar. Þess vegna held ég að menn eigi ekki að nota slík ummæli um menn í pólitískum deilum. (Gripið fram í: Ég hef aldrei gert það.) (Gripið fram í: Jú, jú.) Ja, virðulegi forseti, hv. þingmaður hefur sagt svo ég muni, ég hef nú ekki hjá mér um öll ummæli þingmannsins, að ákveðin ummæli hér daðri við rasisma.

Ég vil minna á athyglisvert viðtal við forstjóra Útlendingastofnunar í Viðskiptablaðinu sl. föstudag, Hildi Dungal, sem einmitt fer yfir þessi mál og segir að margt sé til í því sem Frjálslyndi flokkurinn hefur sagt í þessari umræðu og þeir hafi ekki sagt annað en það sem almenningur er að hugsa. (Forseti hringir.) Það versta sem menn geri í slíkri umræðu sé að reyna að koma á hana einhverjum fordæmingarstimpli því að það kæfi umræðu sem þarf að eiga sér stað.