133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:53]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir orð hv. þingmanns í andsvari en ég gleymdi því áðan í ræðu minni að nefna umsögnina. Umsögn fjármálaráðuneytisins sem hann vakti athygli á er ákaflega ótrúverðug þegar maður er búinn að fara í gegnum frumvarpið og sér hvað þar er á ferðinni, að stofna á nýtt embætti og taka á inn alls konar ákvæði, og fjármálaráðuneytið segir síðan að að óbreyttu hafi hvorki samþykkt frumvarpsins né gildistaka reglugerðarinnar áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þetta er náttúrlega fáránlegt og ótrúverðugt og sýnir í rauninni að þetta þingmál er óunnið, það er illa unnið. Ég tel fulla ástæðu til að við skoðum þetta mjög gaumgæfilega í nefndinni og ég er ekki viss um að þetta mál sé tilbúið til að afgreiðast fyrir þinglok í vor. Ég tek undir gagnrýni hv. þingmanns á þessa umsögn fjármálaráðuneytisins. Hún er mjög ótrúverðug svo ekki sé meira sagt.