133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

sóttvarnalög.

638. mál
[19:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er þannig á þessum vinnustað, hinu háa Alþingi, að ráðherrar hafa einkennilega tilhneigingu til að leggja fram frumvörp sem þingmenn hafa oft ekki mikla hugmynd um að séu á leiðinni. Oftar en ekki berast þessi frumvörp hæstvirtra ráðherra inn í þingið á lokadögum þinghaldsins og við höfum því miður mörg dæmi um það. Síðan eru þessi mál keyrð í gegnum nefnd af miklu offorsi, sennilega til þess að forðast að fram geti farið ítarleg og málefnaleg umræða um efni þeirra.

Virðulegi forseti. Þegar ég skoðaði frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, þar sem m.a. er talað um að hér eigi að setja á stofn sérstakt embætti sóttvarnalæknis þá glotti ég við tönn. Það rifjuðust upp fyrir mér orðaskipti mín við þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins fyrir ekki svo mörgum dögum. Ég var ekki einn um að ræða þau mál við þingmenn og ráðherra, virðulegi forseti. Fleiri þingmenn Frjálslynda flokksins sem tóku þátt í þeirri orðræðu.

Tilefnin voru mörg, m.a. þau að einn þingmanna Framsóknarflokksins, hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir — sem nú er horfin úr salnum en var hér fyrir örfáum mínútum síðan — sakaði Frjálslynda flokkinn um að flagga stefnu mannfyrirlitningar og haturs í pistli í Ríkisútvarpinu vegna þess að þingmenn Frjálslynda flokksins höfðu spurt spurninga varðandi innflytjendur, t.d. um hvort nægilegu eftirliti væri sinnt með þeim útlendingum sem kæmu til Íslands, m.a. með tilliti til hættulegra sjúkdóma svo sem berkla. Þeir sem fylgjast með fréttum frá nágrannalöndum okkar — ég vona nú að hæstv. heilbrigðisráðherra geri það — vita að þar eru til staðar fjölónæm afbrigði af berklabakteríunni enda ekki furða því að víða býr fólk, sérstaklega í Austur-Evrópu, við bág skilyrði. Margir búa þétt saman í köldum húsakynnum, við skilyrði sem því miður eru hagstæð fyrir þessa tilteknu bakteríu.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum legið undir ámæli frá þingmönnum Framsóknarflokksins af öðru tilefni. Í gær sá ég pistil eftir manneskju sem mér skilst að sitji fyrir Framsóknarflokkinn í borgarstjórn eða í nefndum borgarinnar, Marsibil Sæmundsdóttir held ég að sú kona heiti. Henni varð það að orði, þegar hún heyrði sögur af því að sá sem hér stendur og Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður mundu líklega leiða lista hér í Reykjavík, að nú fengi fasisminn að grassera í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las frumvarpið frá hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, um breytingu á sóttvarnalögum. Framsóknarflokkurinn hefur m.a. staðið fyrir því að innleiða lög sem banna borgurum þessa lands að koma með dauð svín, niðursoðin í dósum, til landsins, skinku öðru nafni, af hræðslu við smitsjúkdóma í búfénaði. Framsóknarflokkurinn hefur líka staðið fyrir því að gæludýr sem flutt eru til landsins séu sjálfkrafa sett í sóttkví á eyju í miðjum firði við norðanvert landið og geymd þar vikum saman. Nú er Framsóknarflokkurinn kominn með frumvarp um að hér eigi að koma upp embætti sóttvarnalæknis.

Virðulegi forseti. Ég glotti við tönn þegar ég sé þetta frumvarp vegna þess að ég minntist umræðu þingmanna og ráðherra Framsóknarflokksins í garð okkar í Frjálslynda flokknum. Ég hlýt að velta því fyrir mér, virðulegi forseti: Hvers vegna kemur hæstv. heilbrigðisráðherra fram með þetta frumvarp núna? Hvers vegna nefndi hæstv. heilbrigðisráðherra ekki frumvarp þetta til að svara þingmönnum Frjálslynda flokksins og þeim sem hér stendur í fyrirspurnartíma fyrir um tveimur vikum eða svo? Þá spurði ég hvort eitthvert eftirlit væri haft með þeim mikla fjölda útlendinga sem hingað kæmi í atvinnuleit. Hvers vegna í ósköpunum sagði ekki hæstv. heilbrigðisráðherra frá því að væntanlegt væri frumvarp frá henni um aðgerðir til að gera það sem væri sjálfsagt og eðlilegt — og ég vænti þess að það felist í þessu frumvarpi og þessu embætti — að betra eftirlit verði með sóttvörnum og tryggt verði að ekki verði of mikil hætta á ferðum gagnvart borgurum þessa lands? Það hefði verið hægt að segja okkur hér á hinu háa Alþingi frá því að þetta frumvarp væri á leiðinni í stað þess að vera með skítkast og brigslyrði um að þingmenn Frjálslynda flokksins væru fasistar, við værum að ala á mannfyrirlitningu og hatri fyrir þær sakir einar, virðulegi forseti, að vilja spyrja framkvæmdarvaldið eðlilegra spurninga um mál sem þingmönnum Frjálslynda flokksins er kunnugt um að margir borgarar landsins hafa hugleitt á síðustu missirum.

Virðulegi forseti. Við fengum ekki upplýsingar þá en hins vegar höfum við nú fyrir framan okkur þetta frumvarp og hljótum að fagna því. Við metum það sem gert er og tökum með jákvæðu hugarfari. Það er hátt til lofts og vítt til veggja í Frjálslynda flokknum og við erum reiðubúin til að teygja okkur langt í því að fyrirgefa fólki, jafnvel þótt að það fólk hafi sært okkur með svona ákveðnum ummælum sem okkur finnast ósanngjörn og við ekki eiga skilið. (ÖS: Láttu þá biðjast afsökunar.) Virðulegur þingmaður Össur Skarphéðinsson grípur fram í og segir að ég eigi að krefjast þess að framsóknarmenn biðji Frjálslynda afsökunar. Virðulegi forseti. Ég á ekki von á því að þeir geri það. Ég ætla svo sem ekki að fara fram á það. (ÖS: Ég bað Pétur Blöndal afsökunar í dag.) Já, Framsóknarflokkurinn er Framsóknarflokkurinn. Ég ætla svo sem ekki að fara fram á það í sjálfu sér.

En áður en ég lýk ræðu minni vildi ég svo sem fara aðeins yfir þessa hluti. Ég verð að segja að innst inni er ég sár yfir því að ráðist skuli á okkur í Frjálslynda flokknum með þessum hætti, þótt við viljum ræða þessi mál, innflytjendamál, frá ýmsum sjónarhornum. Við gerum okkur að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að þetta eru viðkvæm mál en við teljum ekki að við höfum sagt neitt rangt, ljótt eða farið yfir strikið í umræðu okkar þótt að sjálfsögðu höfum við hreyft við viðkvæmum málum.

Það er náttúrlega ósanngjarnt að þurfa að sitja undir því að við séum vont fólk sem aðhyllist stjórnmálastefnur sem við höfum skömm og fyrirlitningu á t.d. fasisma, eins og kom fram hjá einum af borgarfulltrúum Framsóknarflokksins í gær. Lái manni hver sem vill, virðulegi forseti, að manni sárni svolítið því að það eru ekki slíkar kenndir, neinar slíkar stjórnmálaskoðanir, sem fyrir okkur vaka. Því er frekar leiðinlegt að þurfa að sitja undir því. Það er líka leiðinlegt að þurfa að sitja undir því frá þingmönnum sem gegnt hafa háum stöðum innan Framsóknar, verið aðstoðarmenn ráðherra, eru ritarar flokksins og formenn innflytjendaráðs. Það er erfitt að sitja undir orðum eins og þessum virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að vitna í það, svo að fólk viti hvað ég er að tala um, með leyfi forseta.

Hér er pistill Sæunnar Stefánsdóttur úr Ríkisútvarpinu þann 5. febrúar þessa mánaðar, síðdegispistill þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„Um síðustu helgi stigu frjálslyndir skrefi lengra í andúð sinni. Þeir hættu að daðra við andúð á útlendingum og ákváðu að ganga alla leið. Það kom greinilega fram í setningarræðu Guðjóns Arnars formanns flokksins sem talaði á þann veg að auka og ala á ótta fólksins í landinu við fólkið sem hingað kemur í atvinnuleit. Ég ætla ekki að endurtaka hér ógeðfelldan boðskap formanns frjálslyndra en láta nægja að segja að þar komu fram viðhorf sem þær þúsundir Íslendinga sem flytja tímabundið til útlanda til náms og starfs þurfa sem betur fer ekki að mæta hjá öðrum þjóðum, viðhorf sem ég vil ekki, og veit að 90% Íslendinga eru sammála mér um, að við viljum ekki að mæti því erlenda fólki sem hingað kemur í leit að tækifærum.

En líklega eru um 10% landsmanna móttækileg fyrir þessum málflutningi og það er til þess fólks sem frjálslyndir tala um þessar mundir, fólksins sem kom til liðs við þá samkvæmt skoðanakönnunum þegar daðrið hófst. Þá voru þeir með 2–3% fylgi í skoðanakönnunum, nú mælist fylgið um 9%. Frjálslyndir telja sjálfsagt að haldi þeir þessu fylgi fram yfir kosningar rætist draumurinn sem Guðjón Arnar orðaði svo í ræðu sinni: „Við viljum ná þeirri stöðu eftir næstu alþingiskosningar að eiga aðild að ríkisstjórn. Við viljum komast í þá aðstöðu að hafa áhrif og völd til þess að koma áherslum okkar að í stjórn landsins og löggjöf.“

Eins og ég sagði áðan eru til flokkar í nágrannalöndum okkar eins og Frjálslyndi flokkurinn er nú orðinn, flokkar sem gera út á andúð í garð útlendinga. Í öllum nágrannalöndum okkar hafa aðrir flokkar lýst því yfir að þeir muni ekki vinna með þeim flokkum og að þeir verði aldrei leiddir að borði ríkisstjórnar meðan þeir flagga þessari stefnu mannfyrirlitningar og haturs.“

Virðulegi forseti. Höfum við flaggað stefnu mannfyrirlitningar og haturs með því að koma með einfaldar spurningar um hluti sem læknar hafa bent á og bent hefur verið á í nágrannalöndum okkar, m.a. í mjög víðlesnum fjölmiðlum án þess að nokkrum heilvita manni í þeim löndum detti í hug að tala þar um rasisma? Þá hlýt ég að velta fyrir mér hvort það sé ekki að flagga stefnu mannfyrirlitningar og haturs og jaðri við fasisma að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli nú hafa dottið í hug að koma á fót embætti sóttvarnalæknis í þessu landi.