133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

flutningur á starfsemi Fiskistofu.

635. mál
[20:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir áhugaverða hugmynd sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Hv. þingmaður fjallar mikið um hvar störfin eigi að vera. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sæi ekki fyrir sér að störfin ættu jafnvel að vera með öðrum hætti og áherslan sem lögð er á það að fylgjast með sjómönnum. Við sjáum að gríðarlega háar upphæðir fara í eftirlitið, eftirlit með mjög ósanngjörnu kerfi sem ekki virðist skila miklu. Við veiðum helmingi færri þorska en við gerðum áður en kerfið komst á. Þetta er svo ósanngjarnt að það þurfi alltaf meira og meira eftirlit í þetta. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki skoðað kerfið með gagnrýnum hætti og hvort ekki mætti að einhverju leyti einfalda eftirlitið og minnka það þannig að kostnaður þjóðfélagsins og útvegsins af eftirlitinu minnki. Hvort að hann hafi hugsað það til enda hvort þetta sé í raun nauðsynlegt eftirlit. Það er margfalt meira eftirlit með sjómönnum landsins en með innflutningi á fíkniefnum.

Það vakna upp spurningar hjá mér þegar það þarf svona mikið eftirlit gagnvart harðduglegu fólki sem vinnur sína vinnu, miklu meira en er með harðsvíruðum glæpamönnum sem flytja inn eiturlyf sem rústa fjölskyldum landsins. Það virðist vera að það þurfi mjög mikið eftirlit með kerfinu, gæti það ekki einmitt verið áfellisdómur yfir kerfinu?