133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

flutningur á starfsemi Fiskistofu.

635. mál
[20:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Níels Eiríksson hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um flutning á starfsemi Fiskistofu. Ég vil koma hingað upp til að lýsa því yfir að ég er hjartanlega sammála þeirri hugsun sem ég tel að liggi á bak við tillögu hans, þ.e. ég tek undir þá viðleitni að við reynum eftir fremsta megni að flytja starfsemi sem ríkið stendur fyrir í auknum mæli út á landsbyggðina. Ég tel að það sé mjög þarft og mjög gott og í mörgum tilfellum hægur vandi. Við höfum hvergi nærri staðið okkur nógu vel eða kannski réttara sagt ríkisstjórnin. Þeir flokkar sem setið hafa í ríkisstjórn undanfarin kjörtímabil, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa hvergi nærri staðið sig nægilega vel í því að flytja starfsemi á vegum ríkisins út á land. Vissulega hefur það verið gert í nokkrum tilfellum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi hér áðan Byggðastofnun. Ég get líka nefnt Landmælingar. Þær aðgerðir hafa, að ég hygg, verið vel heppnaðar og þessar stofnanir hafa fundið sér góðan farveg og starfað af miklum krafti á þeim stöðum sem þær voru færðar til, þ.e. á Sauðárkróki og Akranesi.

Ég minnist þess líka að hæstv. dómsmálaráðherra hefur sýnt viðleitni í þessa átt með flutningi á ákveðnum verkefnum út á land t.d. á Blönduós og Hvammstanga. Ég vil segja, virðulegi forseti, að mér finnst það lofsvert en enn og aftur undirstrika að mér finnst hvergi nægilega að gert í þessum efnum.

Við vitum náttúrlega að fjölmargar byggðir úti á landi hafa verið í mikilli varnarbaráttu um langt skeið. Ástæðurnar fyrir því eru að sjálfsögðu flóknar og kannski ekki tími til að fara yfir þær allar í stuttri ræðu. Ég hygg að það sé mjög skilvirk og góð byggðaaðgerð, eða aðgerð til að reyna að sporna við þróun sem ég tel mjög neikvæða fyrir okkur Íslendinga sem þjóð til framtíðar, að flytja starfsemi á vegum ríkisins út á landi. Við vitum náttúrlega að með tilkomu internetsins hefur orðið bylting í fjarskiptum og samgöngur verða sífellt betri. Það verður æ auðveldara að halda uppi starfsemi af þessu tagi þó að hún sé ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu. Í sjálfu sér er þessi tillaga lofsverð og vonandi til marks um það að Framsóknarflokkurinn, sem er flokkur hv. þm. Ólafs Níelsar Eiríkssonar, sé aðeins farinn að ranka við sér í þessum efnum. Það er þá ekki nema gott eitt um það að segja.

Þó grunar mig, virðulegi forseti, að þingsályktunartillagan, sem ég reikna með að verði send í sjávarútvegsnefnd, verði svæfð svefninum langa og muni ekki aftur koma til umræðu í þingsal. Engu að síður er þetta ágæt viðleitni og lofsverð. Ég held að það væri hægur vandi að gera einmitt það sem liggur hér á bak við, þ.e. að framkvæma hugsunina sem liggur á bak við, með því t.d. að flytja Fiskistofu út á land.

Ég tek undir orð hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um það að þessi tiltekna stofnun, þ.e. Fiskistofa, hefur náttúrlega blásið út. Mér sýnist að hv. þm. Ólafur Níels Eiríksson sé sammála því. Hann segir m.a. í greinargerð, með leyfi forseta: „Enginn sá fyrir sér hvað þessi stofnun átti eftir að blása út.“

Hún hefur svo sannarlega gert það, virðulegi forseti. Í nýjasta frumvarpi til fjárlaga, sem ég hef fyrir framan mig, má sjá að samkvæmt ríkisreikningi, að ég vænti, árið 2005 fékk þessi stofnun 696 millj. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 var gert ráð fyrir að 805 millj. kr. færu í Fiskistofu. Hér er um gríðarlega háar fjárhæðir að tefla. Það kemur fram í greinargerð að nú séu um 96 starfsmenn hjá Fiskistofu. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera lítið úr störfum þeirra en ég held að þessi stofnun sé að mörgu leyti afkvæmi þess óskapnaðar sem fiskveiðistjórnarkerfið er. Við kerfið er sífellt verið að bæta nýjum reglum, nýjum ákvæðum um aukið eftirlit, um það að ríkisvaldið skuli með öllum hugsanlegum hætti fara ofan í saumana á öllu því sem er gert varðandi nýtingu á fiskstofnunum umhverfis landið. Þetta er komið út í tóma vitleysu þegar við skoðum tölurnar.

Ef við berum þetta til að mynda saman við Hafrannsóknastofnun, sem fær samkvæmt fjárlögum nú á þessu ári 1,2 milljarða, fara hvorki meira né minna en 805 millj. í Fiskistofu. Heildarfjárveiting til hafrannsókna og eftirlits er samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2,6 milljarðar rétt rúmir og af því fara hvorki meira né minna en 805 millj. í reksturinn á Fiskistofu. Það fara ekki nema 245 millj. í matvælarannsóknir og ég segi ekki nema 1,2 milljarðar í hafrannsóknir.

Virðulegi forseti. Þessar tölur sýna að við erum á alvarlegum villigötum. Fiskistofa hefði aldrei orðið svona stór og umsvifamikil og dýr í rekstri ef ekki hefði til komið stjórnkerfi sem kallar á gríðarlegt eftirlit með heiðarlegu, vinnandi fólki. Fæstir eru að brjóta af sér en þó þarf til eftirlit, eins og kom fram í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, sem kostar meiri peninga en veitt er til þess að berjast við raunverulegan skaðvald eins og smygl á fíkniefnum og framleiðslu og dreifingu á fíkniefnum hér á landi. Þessar tölur sýna með óyggjandi hætti að við erum á alvarlegum villigötum. Við þurfum að fara að hugsa okkur vel um. Það er kominn tími til að við tökum allt fiskveiðistjórnarkerfið til endurskoðunar og Fiskistofu líka og förum að hugleiða hvort við höfum einhvers staðar á rúmlega 20 ára vegferð gert mistök, hvort ekki sé kominn tími til að hugsa hlutina upp á nýtt.

Við í Frjálslynda flokknum höfum barist fyrir því um margra ára skeið að við færum að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Við höfum kallað eftir umræðu um þessi mál. Það er alveg hárrétt, og það er staðfest í öllum tölum, að fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er núna hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Fiskveiðistjórnarkerfið hefur að sjálfsögðu haft mjög mikil og neikvæð áhrif fyrir fjölmargar sjávarbyggðir umhverfis landið. Byggðirnar hafa verið sviptar sjálfsögðum rétti til að nýta náttúruauðlindir sínar og í tengslum við þessa umræðu er ég náttúrlega fyrst og fremst að tala um nýtinguna á sjávarauðlindinni.

Það hefur gætt viðleitni hjá ráðherrum að flytja hluta af starfsemi Fiskistofu út á land en kannski er minnisstæðasta aðgerðin í þeim efnum þegar hæstv. fyrrv. sjávarútvegsráðherra, núverandi fjármálaráðherra, tók Fiskistofu á síðustu dögum sínum sem sjávarútvegsráðherra, setti hana í skottið á bílnum hjá sér og fór með hana suður í Hafnarfjörð. Sú hugmynd sem hér liggur fyrir gengur út á skynsamlegri aðgerðir en það.