133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

flutningur á starfsemi Fiskistofu.

635. mál
[20:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég verð að því lýsa yfir að ég er sammála meginefni frumvarpsins, að skoða eigi hvort opinber störf sé ekki hægt að vinna á fleiri stöðum en einum á landinu. Athyglisvert er að ég man ekki eftir því á kjörtímabilinu að einhver ráðherra eða þingmaður Framsóknarflokksins hafi komið með einhverja tillögu þess efnis að fara með opinber störf út á land. Fyrir nokkrum árum, fyrir þetta kjörtímabil, voru dæmi um það, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi, að framsóknarmenn höfðu forgöngu um að flytja opinber störf út á land eins og Byggðastofnun og Íbúðalánasjóð. Nú virðist þetta vera gleymt og þau störf sem hafa verið flutt hafa verið minni háttar störf. Þó ber að þakka fyrir það að menn muni að einhverju leyti eftir flutningum starfa út á land. Þá vil ég nefna það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur flutt á Blönduós og verkefnin sem hann hefur flutt m.a. í Búðardal, til sýslumannsins þar, varðandi ættleiðingarstörf o.fl., en þetta hefur ekki verið stórt.

Það sem fram hefur komið í svörum í þinginu er að straumurinn af opinberum störfum hefur verið af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið. Opinberum störfum hefur fækkað, það eru staðreyndir. Það er tímanna tákn að menn koma hér með þingsályktunartillögu um að flytja einhver störf, að það skuli vera hv. varaþingmaður, Ólafur Níels Eiríksson, sem skuli gera það og enginn þingmaður Framsóknarflokksins hafi komið með raunverulega tillögu á kjörtímabilinu um það að byggja eitthvað upp á landsbyggðinni. Það hefur ekkert verið. (Gripið fram í.)

Það var athyglisvert í dag að hæstv. byggðamálaráðherra sem er ekki í salnum, því miður, og mig undrar það ekki miðað við þann litla áhuga sem hann hefur sýnt byggðamálum, hafði engin svör í umræðum utan dagskrár í dag um hvað ætti að gera í byggðamálum. Það voru engin svör hjá hæstv. ráðherra. Hann kom bara með einhvern pistil úr ráðuneytinu sem var ekki innihaldsmikill, hann var vægast sagt innihaldsrýr. Ég spyr sjálfan mig: Er þetta það sem Framsóknarflokkurinn ætlar með í gegnum næstu alþingiskosningar, að vera með auðan seðil gagnvart landsbyggðinni og halda áfram með kerfi sem hefur rústað hverri byggðinni á fætur annarri, þá á ég við fiskveiðistjórnarkerfið? Maður spyr sig: Er þetta boðskapurinn til þeirra sem búa úti á landi og búa við það að hafa lægri laun en fólk á höfuðborgarsvæðinu? Á þetta fólk virkilega að fara að kjósa Framsóknarflokkinn, og til hvers í ósköpunum, hvað hafa þessir menn upp á að bjóða? Fram kom í dag í umræðum að það var nákvæmlega ekki neitt.

Tillagan sem hér kemur fram er að mörgu leyti ágæt en samt sem áður verða menn að fara í gegnum Fiskistofu. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Ólafi Níelsi Eiríkssyni að margt gott starfsfólk vinnur þar, en það vinnur í kerfi sem er alvont. Það er verið að telja fiska upp úr sjónum og vinna í mjög ranglátu kerfi þar sem þeir sem eru að vinna og draga bein úr sjó þurfa jafnvel að leigja aflaheimildir fyrir 70%, það rennur strax út úr rekstrinum fyrir það eitt að fá að renna fyrir fisk. Þetta er auðvitað óþolandi. Þeir sem bera raunverulegan hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti eiga ekki að sætta sig við slíkt kerfi. Þó svo að einhver störf séu flutt út á land, þó að þau væru 100 á Fiskistofu, hefur það ekkert að segja miðað við eyðingarmátt kerfisins sem stofnunin á að gæta. Stofnunin á að gæta kerfis sem er alvont í eðli sínu og hefur ekki skilað einu né neinu.

Við verðum að gæta að því að fiskatalningin er hrein og klár vitleysa. Að vera að telja upp úr trillum nokkra þorska og jafnvel að sekta harðduglega menn fyrir að koma ekki með þann afla sem þeir draga í land vegna þess að þeir eiga ekki kvóta fyrir honum í ranglátu kerfi fyrir á aðra milljón er hrein og klár vitleysa. Við verðum að gæta að því að allur sjávarafli Íslendinga á síðasta ári var 1,4 milljónir tonna. Hvað er hrefnan ein að éta? Hún er að éta jafnvel á þriðju milljón tonna og við höldum að við stýrum fiskveiðum með því að binda flotann við bryggju og vera að stýra því og telja upp úr trillunum og jafnvel að loka heilu veiðisvæðunum og höldum að það verði einhver uppbygging á fiskstofnunum. Það er alrangt og ég held að kerfið þurfi að fara í rækilega endurskoðun.

Þingsályktunartillagan dregur í rauninni fram og kristallar hvað kerfið er vitlaust. Það að á annað hundrað manns þurfi að fylgjast með harðduglegum sjómönnum segir það að kerfið er alvitlaust. Þegar við erum að vernda kerfi og þeir sem eiga hagsmuna að gæta í því vilja fjölga eftirlitsmönnunum enn meira og gera eftirlitið enn þá öflugra, þá spyr maður sig: Hvað á að ganga langt? Ég held að það sé löngu tímabært að fara í gegnum það hvort við eigum ekki einfaldlega að breyta kerfinu, það er rótin að því hvað byggðaröskunin hefur verið geigvænleg á landsbyggðinni. Það eina sem íbúar landsbyggðarinnar sjá er að fá mögulega að nota orkuauðlindir sínar til þess að knýja orkufrekan iðnað svo sem álver. Það er það eina sem má, en ef nýta á auðlindina sem er í firðinum þeirra, við hafnarkjaftinn, þá er það bannað og það þarf að borga fyrir fram 70% í það að leigja aflaheimild.

Kerfið er alrangt og hefur ekki skilað neinu og ég vona svo sannarlega af því að hér kveður við nýjan tón hjá hv. þingmanni, hann sér að framsóknarmenn hafa ekki staðið sig á kjörtímabilinu og reynir að bjarga því sem bjargað verður og kemur þess vegna með þessa þingsályktunartillögu. Það ber auðvitað að virða það og þakka fyrir hana og það væri sómi að því ef hæstv. ráðherra byggðamála mundi taka þetta mál og nýta síðustu vikurnar til þess að renna í gegnum það og sjá hvort ekki sé hægt að (Forseti hringir.) láta hendur standa fram úr ermum hvað þetta varðar.