133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:05]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að það ber himin og haf í milli launanefndar sveitarfélaga og viðsemjenda kennara. Það horfir illa í grunnskólastarfi okkar og hefur gert núna um langt skeið. Frá því að kennararnir voru reknir til starfa með hótun um lagasetningu hefur verið mikil óánægja í stéttinni og það ber himin og haf í milli þessara viðsemjenda.

Verðbólgan, óstöðugleikinn og sú kjaraþróun sem hefur orðið til út af óstöðugleika og verðbólgu gera það að verkum að kennarar gera kröfur um 7% launahækkun en launanefnd sveitarfélaganna býður rúmlega 0,7%. Þetta er ákvæði sem kennt er við grein 16.1 og þarna ber himin og haf í milli og það er augljóst að til að brjótast út úr þessari stöðu þarf að grípa til einhverra aðgerða. Það verður að komast inn í þessa stöðu og þess vegna er grátlegt að hæstv. forsætisráðherra telji sig málið bókstaflega ekkert varða. Maðurinn sem ber ábyrgð á verðbólgunni, maðurinn sem rak kennarana aftur til starfa með hótun um lagasetningu, honum kemur málið ekkert við og vill ekkert ræða það hér, vill ekki ræða eðlilega og brýna fyrirspurn frá formanni Samfylkingarinnar um aðkomu ríkisins að því að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Þar er nefnilega vitlaust gefið. Sveitarfélögin eru beitt ranglæti af ríkinu, þau hafa ekki notið þenslunnar í þeim mæli sem ríkissjóður hefur gert og það verður að bæta sveitarfélögunum það og gera þeim kleift að standa undir þessu stærsta og brýnasta verkefni sínu sem er að reka grunnskólana í landinu og rífa þannig skólastarf upp úr miðlungsstöðunni til þess að við getum reist hér bestu skóla í heimi. Við eigum að reisa virðingu og starfskjör kennara við, þar þarf ríkisvaldið að koma að, þetta er ekki einkamál sveitarfélaga. Málið er í strandi og þess vegna er fagnaðarefni sú hugmynd sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði kemur með um að (Forseti hringir.) kjaradómur leysi deiluna. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur, ef hann lætur af fálæti sínu, að fagna þeirri hugmynd.