133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram liggur auðvitað ekki beint við að hér sé tekin til meðferðar á Alþingi kjaradeila sú sem kennarar eiga í við launanefnd sveitarfélaganna. Á hitt verður að líta að það er á ábyrgð menntamálayfirvalda að starfsumhverfi það sem kennarastéttinni er boðið sé með þeim hætti að þangað safnist áfram hæft fólk. Hæfasta fólkið í samfélagi okkar til að kenna börnunum okkar þarf að vera við kennarastörf og það skiptir verulegu máli hvernig búið er að þessari stétt því að það er um að tefla framtíð barnanna okkar, framtíð samfélags okkar. Gríðarleg ábyrgð hvílir á menntamálayfirvöldum og ríkisstjórninni allri í þessum efnum.

Þar kemur tvennt til þar sem ríkisstjórnin getur verulega beitt sér. Það er í fyrsta lagi það sem hér hefur verið nefnt, tekjujöfnun milli ríkis og sveitarfélaga. Það skiptir máli að þar sé haldið þannig á spilunum að sveitarfélögin þurfi ekki að kvarta og kveina á þeim nótum sem gert hefur verið undanfarin ár. Það hefur verulega hallað á sveitarfélögin í þeirri tekjujöfnun sem við samkvæmt lögum höfum reynt að setja á, reynt að koma á. Ríkisstjórnin verður að taka upp kjarajöfnunarmálin og tryggja að sveitarfélögin séu þannig í stakk búin að þau geti greitt þann grunnskóla sem menntamálayfirvöld hafa ákveðið fyrir sitt leyti að eigi að reka.

Ábyrgðin er að stórum hluta ríkisstjórnarinnar og hún varðar peningamál. Ríkisstjórnin verður auðvitað að átta sig á því að það þarf að taka á í þessu máli núna vegna þess að ótti fólks um það að við stefnum hér inn í óbærilegt ástand er orðinn áþreifanlegur í samfélaginu. Ríkisstjórnin ber að hluta til ábyrgð á þeim ótta og þarf að grípa til aðgerða.