133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:09]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Rekstur grunnskólanna er eitt stærsta verkefni sveitarfélaganna og það sem tekur til sín drýgstan hluta af tekjum þeirra. Þess vegna er það þannig að þegar sveitarfélögunum er svona þröngur stakkur skorinn í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafa þau kannski ekki ýkja mikið að bjóða og kennarastéttin, þessi stóra stétt, líður fyrir það. Þess vegna er þetta mál sem verður að vera og á að vera á borði ríkisstjórnarinnar. Hún hefur ekkert mjög langan tíma, aðeins það sem eftir lifir af þessu þingi, til að taka á þessum málum. Það er hálfur mánuður eftir, það er ljóst að sveitarfélögin í landinu munu halda sitt þing núna í lok mars og þá verða sveitarfélögin að vita við hverju þau mega búast.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða einhliða og koma með einhverjar gjafir í aðdraganda kosninga eins og hún tíðkar, heldur á málið að koma til kasta þingsins og við eigum að takast á við þennan rekstrarvanda sveitarfélaganna þannig að sveitarfélögin geti gert vel við sitt fólk, við grunnskólakennara sína. Einhver mikilvægasta þjónusta sem sveitarfélögin halda uppi er grunnskólinn og leikskólinn. Ef það er eitthvað sem skiptir þessa þjóð máli er það menntun okkar unga fólks.

Það er vitlaust gefið í þessum efnum og það þarf að taka á því. Málið á líka að vera á borði ríkisstjórnarinnar vegna þess að sett voru lög á kennara, gleymum því ekki. Í nóvember 2004 tók Alþingi ábyrgð á þessu máli með því að setja lög á verkfall kennara. Við í Samfylkingunni vorum að vísu á móti því og vorum sannfærð um að það leysti ekki málið, og það er komið á daginn. Nú standa kennarar uppi með þetta ákvæði sem gaf þeim ákveðna von um að þeir fengju einhverjar bætur vegna þeirrar verðbólgu sem hér hefur verið en það er verið að bjóða þeim 0,75%. Það er ekki nóg og það mun ekki leysa málið og (Forseti hringir.) þess vegna verður ríkisstjórnin að láta það til sín taka.