133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:18]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ótrúlegt að sitja hér úti í þingsal og horfa til hæstv. forsætisráðherra sem situr í sæti sínu hnípinn, kemur ekki aftur í umræðuna og tekur ekki frekari þátt í þeirri umræðu sem hér hefur skapast um fjárhagsvanda sveitarfélaganna sem er meginástæðan fyrir því að sveitarfélögin treysta sér illa í samningagerð við grunnskólakennara núna.

Hvað þýðir það að hæstv. forsætisráðherra sitji kyrr og komi ekki í þá umræðu? Hefur hæstv. forsætisráðherra ekkert að segja þingheimi um það hvort til standi að taka upp tekjuskiptinguna milli ríkisins og sveitarfélaganna? Hefur hæstv. forsætisráðherra sem var hæstv. fjármálaráðherra í langan tíma og ábyrgur einmitt fyrir því að semja við sveitarfélögin um skiptingu tekna ekkert um málið að segja? Eru engin skilaboð til þeirra sem stýra sveitarfélögunum nú í aðdraganda landsþings sveitarfélaganna?

Það er ótrúlegt að verða vitni að slíku fálæti eins og hæstv. forsætisráðherra sýnir okkur í þessu máli. Það hlýtur að segja okkur að það sé lítill vilji hjá hæstv. ríkisstjórn til að koma inn í málið og til þess að ræða í alvöru við sveitarfélögin um tekjuskiptinguna.

Það sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur gert á undanförnum árum er að hafa fé af sveitarfélögunum. Það er í formi laga sem sett hafa verið um einkahlutafélög þar sem fjöldi launþega er farinn að taka laun sín í gegnum fjármagn og greiðir sáralítið og jafnvel ekki neitt í samfélagslega sjóði hjá sveitarfélögunum.

Af því hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram gagnvart sveitarfélögunum undanfarin ár sést að hún ætlar ekki (Forseti hringir.) að leiðrétta þessa tekjuskiptingu. Því verðum við að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Stendur til að gera eitthvað í málinu?