133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:31]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þeim fjölgar boðberum endaloka íslensku krónunnar. Núna síðast vað það Sigurjón M. Árnason, bankastjóri Landsbankans, í viðtali við hið prýðilega tímarit Krónikuna sem er nýstofnað og kemur út vikulega. Þar færir hann gild rök fyrir því að þetta minnsta myntsvæði í heiminum geti ekki með neinum hætti staðið undir þessum gjaldmiðli til lengdar. Þess vegna er ástæða til að taka undir orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um það að verðbólgan, gengissveiflurnar og smæð myntsvæðisins hlýtur að marka, í þessum breytta heimi stórra myntsvæða, endalok íslensku krónunnar einhvern tíma í náinni framtíð. Meira að segja þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri, og einhver dyggasti varðhundur íslensku krónunnar, er farinn að gefa henni áratug í mesta lagi þá er ástæða til að spyrja stórra spurninga. Þess vegna er ágætt að spyrja hæstv. forsætisráðherra í leiðinni hvort hann telji að Ísland muni einhvern tíma í náinni framtíð uppfylla frumskilyrði fyrir aðild að Efnahags- og myntbandalaginu með aðildarumsókn og kannski fullri aðild í framhaldinu að Evrópusambandinu sjálfu þar sem hann svaraði sjálfur spurningu með spurningu.