133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég svaraði þeim spurningum sem til mín var beint. Þær voru um alveg ákveðin skilgreind atriði. Spurningin um evruna og upptöku hennar er síðan miklu umfangsmeira málefni en svo að því verði svarað í stuttum fyrirspurnatíma. Auðvitað er það þannig að lítið myntsvæði eins og hið íslenska hefur ýmsa ókosti í för með sér, það vita allir og viðurkenna en spurningin er: Eru til betri kostir? Ég tel ekki að svo sé, a.m.k. ekki í augnablikinu.

Það þarf líka að gá að því hvernig þeim löndum hefur vegnað í Evrópu sem ekki eru aðilar að Evrópska efnahags- og myntbandalaginu. Hvernig vegnar Svisslendingum, Norðmönnum, Íslendingum hvað varðar kaupmátt, hagvöxt og marga fleiri mælikvarða sem nefndir eru en eru ekki hluti af þeim fimm sem ég fór yfir í upphaflegu svari mínu. Þetta verða menn allt að hafa í huga þegar þeir kynna sér heildarmyndina og málflutningur á borð við þann sem hafður hefur verið uppi í dag af hálfu Samfylkingarinnar um þetta mál er ekki til þess fallinn að upplýsa málið eða efna til rökrænnar umræðu eins og ummæli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að seðlabankastjóri sé varðhundur krónunnar eru kannski besta dæmið um.