133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að kosningar eru í nánd og mikið að gera hjá ráðherrum af því tilefni. Þeir fara víða um, skrifa upp á, taka skóflustungur og gera samninga við þá helst, að manni skilst, sem við þá vilja gera samninga. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að alla jafna er kosið á fjögurra ára fresti, þ.e. umboð þingmanna og ráðherra er alla jafna til fjögurra ára nema eitthvað óvænt komi upp á. Þar af leiðandi fara menn með ríkisvaldið á þessum fjórum árum. Sú var tíðin, a.m.k. var það þannig í Háskóla Íslands þegar ég var þar, að það var kennt að það væri svona kurteisi og venja að þeir ráðherrar eða sá meiri hluti sem tæki við virti ákvarðanir þess meiri hluta sem áður sat, þ.e. að menn framfylgdu þeim ákvörðunum, enda var alla jafna ekki gert ráð fyrir að um stórkostlegar ákvarðanir væri að ræða.

Þetta hefur breyst verulega og ég tók saman að gamni mínu þau loforð sem að undanförnu hafa verið gefin um fjárveitingar í framtíðinni, eftir að umboð núverandi ráðherra er útrunnið og eftir að umboð núverandi þingmanna er útrunnið. Mér telst til, og er ég þá með samgönguáætlun þar inni, að um sé að ræða um 400 milljarða sem er búið að lofa á einn eða annan hátt með skóflustungum, samningum og fleiru, þ.e. útgjöldum úr ríkissjóði. Samgönguáætlun er vissulega lögbundin og á kannski ekki að vera inni í þessu en hvað um það hér er um geysilega háar fjárhæðir að ræða og í sumum málum er jafnvel um stefnumarkandi samninga að ræða eins og t.d. varðandi sauðfjárræktina en í þeim lögum er gert ráð fyrir því að meginreglu að þar sé samið til árs í einu. Mér finnst mjög athyglisvert hvernig þessi þróun hefur verið og ég veit að hæstv. forsætisráðherra gagnrýndi það mjög á sínum tíma þegar hann var fjármálaráðherra að menn væru að gefa út kosningavíxla eða kosningabombu, eins og hæstv. ráðherra kallaði það á sínum tíma. Þess vegna langar mig til að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem hljóðar svo:

Hvert er lagalegt og siðferðilegt gildi fjárskuldbindinga ráðherra fyrir hönd ríkisins eftir að umboð þeirra er út runnið?