133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:47]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað dálítill munur á því að vera ráðherra í aðdraganda kosninga eða ekki. Það er ekki hægt að neita því að þegar ráðherra skrifar undir samning er það samningur. Það er ekki bara loforð eða yfirlýsing stjórnmálaflokks eða einstaklings, það er samningur fyrir hönd ríkisins. Hæstv. menntamálaráðherra skrifaði nýlega undir samning við Háskóla Íslands þar sem háskólanum eru lofaðir 8 milljarðar kr. í rannsóknir á næstu árum. Þó að fjárhæðir í samningnum séu með fyrirvara um samþykki Alþingis er þetta samt samningur og heldur gildi sínu að öðru leyti, virðulegi forseti, auk þess sem það er ekki víst að fyrir fram verði sótt um samþykki Alþingis. Þau eru því miður til, dæmin um það að ráðherrar hafi eytt fjármunum ríkisins umfram heimildir fjárlaga og þess eru líka dæmi eins og hæstv. forsætisráðherra veit að ráðherra hafi eytt peningum ríkisins án heimildar fjárlaga. (Forseti hringir.)