133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæða til að vara við undirskriftum ráðherra á næstu vikum og mánuðum. Umboð þessarar ríkisstjórnar rennur út í vor. Þingið verður að staðfesta allar fjárskuldbindingar. Ráðherra hefur nánast ekkert vald í þeim efnum þótt hann leiki sér með það. Það er mikill ábyrgðarhlutur að skrifa undir samninga sem þingið hefur ekki fjallað um. Ráðherra getur skrifað undir viljayfirlýsingar um að hann vilji láta eitthvað tiltekið gerast á árinu 2008, 2009, 2010, 2012 o.s.frv. en samninga getur hann ekki undirritað nema með fullkomnum fyrirvara um samþykki Alþingis. Það er alveg á mörkum þess siðlega að á síðustu vikum og mánuðum ríkisstjórnar, ég tala nú ekki um sem er búin að sitja jafnlengi og þessi hér, sé farið um landið og skrifað undir eitthvað sem ráðherra kallar samninga en sem næsta ríkisstjórn verður að efna á næstu árum.