133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðgengi og afþreying í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

614. mál
[12:58]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr um áform ríkisstjórnarinnar hvað varðar nokkur atriði er lúta að Þingvöllum. Tveir sérfróðir menn sem hv. þingmaður nafngreindi gerðu á árinu 2005 að beiðni þáverandi forsætisráðherra úttekt á ástandi húsnæðis Hótels Valhallar á Þingvöllum. Þá úttekt má finna á heimasíðu forsætisráðuneytisins og þar er margt forvitnilegt eins og hv. þingmaður gat um.

Hugmyndir þessara sérfræðinga sem snúa að framtíðarstarfsemi staðarins eru þær að núverandi Valhöll verði öll eða að hluta til rifin og reist ný bygging á grunni hennar í samræmi við þarfalýsingu sem unnin yrði í samráði við hagsmunaaðila. Lögð verði áhersla á að framkvæmdin auki hið sérstaka gildi sem Þingvellir hafa og stuðli að ánægjulegri dvöl þeirra sem heimsækja þjóðgarðinn. Enn fremur að efnt verði til opinnar samkeppni um hönnun hússins í samræmi við samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands og yrði annaðhvort út frá því gengið að um algera nýbyggingu yrði að ræða eða að framhús gömlu Valhallar yrðu varðveitt að viðbættri nýbyggingu.

Ríkisstjórnin samþykkti í ársbyrjun 2006 á grundvelli þessarar skýrslu að heimila forsætisráðherra að láta fara fram framtíðarlýsingu um framtíðarskipan Valhallar sem unnin yrði í samráði við hagsmunaaðila. Sömu aðilum var falið að gera þarfalýsinguna og hafa þeir m.a. rætt við forsvarsmenn Þingvallanefndar, sveitarfélagið Bláskógabyggð og þjóðkirkjuna. Fyrirhugað er að þeir eigi fund með forseta Alþingis von bráðar. Gert er ráð fyrir að gerð þarfalýsingar verði lokið um mitt þetta ár.

Auðvitað er stór spurning hvort reisa eigi nýtt gistihús þar sem Valhöll stendur í dag þegar núverandi húsnæði hefur gegnt hlutverki sínu. Um það þarf að fjalla sérstaklega og uppi eru hugmyndir eins og kunnugt er um að gistihús rísi í Bolabás í stað þess sem nú stendur í þjóðgarðinum en engin afstaða hefur verið tekin til þessara hugmynda. Rétt er að vekja athygli á því að rætt hefur verið um að Alþingi og alþingismenn fái betri aðstöðu á Þingvöllum en er í dag.

Varðandi 2. lið spurningarinnar er það að segja hvað varðar merkingar á íslensku og ensku á stöðum í þjóðgarðinum að þegar hafa verið sett upp upplýsingaskilti með íslenskum og enskum texta við merka staði í garðinum og er þar að finna fræðslu- og myndefni eftir Gylfa Gíslason myndlistarmann. Þar má nefna svokölluð aðkomuskilti sem eru með texta og myndefni og þau eru við helstu aðkomur að þjóðgarðinum, við fræðslumiðstöðina á Hakinu, á þingplaninu neðan göngustígs í Almannagjá, á bílastæðinu austan Flosagjár og við heimreiðina að Valhöll. Á Lögbergi eru einnig þrjú skilti sem lýsa hugmyndum um mannlíf í Almannagjá um þingtímann og skilti með texta og ljósmyndum frá hátíðahöldum á Þingvöllum. Fleiri skilti er að finna innan þjóðgarðsins og á næstunni er ætlunin að setja upp skilti eða tímarefil svokallaðan á íslensku og ensku með myndum Gylfa Gíslasonar og texta sem rekur helstu viðburði Íslandssögunnar og sögu Þingvalla frá árinu 874 til 2000.

Í áætlun Þingvallanefndar fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að sett verði upp fræðslu- og upplýsingaskilti með texta og myndum um náttúrufar og lífríki Þingvalla og Þingvallavatns.

Þess má einnig geta að í fræðslumiðstöðinni á Hakinu er margmiðlunarsýning á fimm tungumálum. Þar er unnt að kynna sér sögu og náttúru Þingvalla á stórum flatskjám sem stýrt er með snertiskjám og einnig á stóru tjaldi sem ætlað er stærri hópum. Þar er einnig að finna kort með upplýsingum um örnefni, staðhætti og margt fleira.

Að því er varðar síðustu spurningu hv. þingmanns um hvort ríkisstjórnin hafi áform um að stuðla að því að almenningi gefist kostur á að sjá Þingvelli frá öðru sjónarhorni, t.d. með því að rafknúið farþegaskip með góðri veitingaaðstöðu sigli á vatninu yfir sumartímann, er því til að svara að á árunum 1996–2003 var rekinn bátur til útsýnisferða á Þingvallavatni. Sá bátur var í eigu heimamanna í Þingvallasveit. Heimabryggja var við Skálabrekku en einnig var með leyfi Þingvallanefndar komið fyrir flotbryggju í Arnarfelli þar sem hægt var að ganga á land til skoðunar. Rekstur bátsins gekk því miður ekki vel þrátt fyrir dugnað og áhuga heimamanna á verkefninu og var rekstrinum hætt. Ekki eru uppi hugmyndir um rekstur skips eða báts á Þingvallavatni af hálfu Þingvallanefndar.