133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðgengi og afþreying í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

614. mál
[13:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hans, ég tek undir með honum og fagna því að í huga ríkisstjórnarinnar sé það ætlan að stuðla að ánægjulegri dvöl í þjóðgarðinum. Ég tel að ekki sé endilega ástæða til að setja nýtt hótel á sama stað og það sem nú er en ég held að við séum öll sammála um að Hótel Valhöll á Þingvöllum sé okkur ekki til sóma. Það er kvartað yfir því að það sé óvenjulega hljóðbært á milli herbergja, það er fúkki og saggi eins og sagt hefur verið. Í mörg ár var byggt og bætt við af miklum vanefnum og hótelið er okkur ekki til sóma eins og það er. Þess vegna ætti að vinda bráðan bug að tvennu, rífa Valhöll og auðvitað byggja svo nýtt hótel.

Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að það er mikill sómi að fræðslumiðstöðinni á Þingvöllum, virkilega skemmtileg uppsetning þar á ferðum og það verk sem þar hefur verið unnið. Það sem áformað er varðandi merkingar á stöðum og helstu viðburði merkta var náttúrlega það sem ég átti við. Mér finnst að þessu þurfi að gefa betri gaum vegna þess að fólk er farið að leggja leið sína í æ ríkari mæli í þjóðgarðinn og njóta þeirrar náttúrufegurðar sem þar er.

Ég vonast til þess að átak verði gert í þeim málum sem snúa að gistingu og eins að auðvelda aðgengi ferðamanna að Þingvöllum enn frekar en orðið er.