133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fólksfækkun í byggðum landsins.

562. mál
[13:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Mér fannst viðbrögð hæstv. iðnaðarráðherra frekar dapurleg. Þetta er annað kjörtímabil mitt á þingi og ég minnist þess að eitt fyrsta málið sem var rætt þá í upphafi fyrir einum sjö, átta árum voru byggðamál. Þá var sagt að byggðamálin hefðu verið í svo miklum ólestri að það þótti nauðsynlegt að flytja þau frá Sjálfstæðisflokknum til Framsóknarflokksins. Síðan hefur allt haldið áfram að versna. Á hverju ári hafa menn talað um að það þyrfti að afla skýrslna, gera úttekt, greina. Drottinn minn dýri, hvað ætli séu orðnir margir hillumetrar af greiningum, úttektum og stöðulýsingum í tíð núverandi ríkisstjórnar í byggðamálum?

Ekki er þörf á fleiri skýrslum eða einhverjum úttektum. Það er þörf á aðgerðum. Aðgerðirnar birtast jú í niðurskurði á vegáætlun sem búinn er að vera árviss viðburður síðustu fjögur árin. (Gripið fram í: Eftir kosningar.) (Forseti hringir.) Það eru aðgerðir, frú forseti, en ekki skýrslur sem þarf.