133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fólksfækkun í byggðum landsins.

562. mál
[13:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og ráðherra fyrir svörin þó að ég verði að segja og taka undir að það er kannski frekar ósanngjarnt að skamma núverandi hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það sem ekki hefur verið gert í byggðamálum í langan tíma. En sem formaður Framsóknarflokksins verða þær skammir náttúrlega að lenda á honum sem slíkum vegna þess að hann tók við slæmu búi, tók við af fyrrverandi framsóknarforustu og ber þennan kaleik.

Þegar ég lagði fram fyrirspurnina hugsaði ég með mér hvort ég ætti yfir höfuð að vera að leggja hana fram og hvort nokkuð kæmi út úr henni. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að lítið kom út úr henni annað en það að þessa dagana, eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði, er verið að kynna einhverja áætlun og einhverjar hugmyndir um að fara í þessa vinnu. Getur verið, virðulegi forseti, að eftir að fyrirspurnin var lögð fram fyrir hálfum mánuði, þremur vikum, hafi iðnaðarráðuneytið loksins með hæstv. iðnaðarráðherra, byggðamálaráðherra, í broddi fylkingar farið af stað? Getur verið að byggðaáætlun sé olnbogabarn núverandi hæstv. ríkisstjórnar? Já, og hefur verið það allan tímann. Innan iðnaðarráðuneytisins hefur það oft komið fram að lítið er gert í þessum málum eftir að áætlun hefur verið samþykkt, sem oft og tíðum er fallega fram sett, fögur fyrirheit og ágætlega orðuð og allt það, en því miður gerist ekki neitt.

Virðulegi forseti. Það eina sem ég fékk kannski út úr fyrirspurninni er, eins og kom fram í svari hæstv. iðnaðarráðherra, að þessa dagana er verið að athuga að fara (Forseti hringir.) að gera eitthvað í því máli sem ég spurði um og var samþykkt í júní 2006 en vitað hefur verið um í tíu ár.