133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[13:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var löngum sagt um hana Landsvirkjun að hún væri ríki í ríkinu og liti á sig sem slíka, pantaði leyfi og heimildir til framkvæmda eftir því sem mönnum þótti ástæða til, þar á meðal ríkisábyrgðir á lán frá ríkinu. Þessi saga er vel þekkt, en maður hefur verið að vona að þetta væri liðin tíð og að Landsvirkjun þyrfti að hegða sér með hliðsjón af aðstæðum og nútímaviðhorfum hvað er við hæfi í mannlegum samskiptum og hvernig á að koma fram við landeigendur, jarðeigendur og aðra slíka. Hafi þau skilaboð ekki komist til stjórnenda Landsvirkjunar enn eru hæg heimatökin að láta þau berast þangað því að nú vill svo til að Landsvirkjun heyrir alfarið undir ríkið og hæstv. fjármálaráðherra fer með eigendavaldið, fer með eigendaábyrgðina fyrir hönd ríkisins.

Framganga Landsvirkjunar í undirbúningi að virkjunum í neðri hluta Þjórsár vekur auðvitað mikla athygli, t.d. það að ekkert er farið að tala við landeigendur og rétthafa á svæðinu á meðan undirbúningur er settur á fulla ferð og boðin út hönnun mannvirkja á landi í einkaeigu, hvers eigendur eru andvígir framkvæmdunum og hafa ekki samið um að láta sitt land undir þær. Ég skil satt best að segja ekki hvernig menn geta hegðað sér með þessum hætti og allra síst opinbert fyrirtæki. Þess vegna hljótum við að spyrja eins og ég geri hér í fyrirspurn hvort þessi framganga fyrirtækisins sé með stuðningi og velvilja hæstv. ráðherra. Nú liggur fyrir mikil og vaxandi andstaða heima fyrir við framkvæmdirnar þegar útfærsla virkjananna liggur fyrir með þremur stórum uppistöðulónum og hærri lónhæð en áður var gert ráð fyrir og miklu meiri landspjöllum, þá af eðlilegum ástæðum fer andstaða á svæðinu mjög harðnandi. Það verður ekki séð að það hafi nein áhrif á Landsvirkjun og/eða þann sem með eigendaábyrgðina ber að þessi staða er uppi í málinu.

Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Landsvirkjun láti af frekari virkjanaundirbúningi í neðri hluta Þjórsár í ljósi andstöðu landeigenda og fleiri heimamanna?

2. Telur ráðherra við hæfi að Landsvirkjun bjóði út hönnun mannvirkja á landi í einkaeign sem ekki hefur verið samið um afnot af eða um bætur fyrir og þegar ljóst er að landeigendur eru framkvæmdunum andvígir?

Ég vil fá alveg skýr svör um það hvort framgangan er með stuðningi og blessun ráðherra. Það dugar ekki fyrir hæstv. ráðherra að ætla að reyna að skjóta sér á bak við einhverja stjórn eða einhverja aðra slíka sem hann handvelur fyrir fyrirtækið. Eigendaábyrgðin er á herðum hæstv. ráðherra og hann skal veskú svara skýrt.