133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[13:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Þegar menn tala svona og segja „veskú“ þá veltir maður fyrir sér hvort menn segi „óekkí“ eða „skrúflulaust“, hvort það geti verið að hægt sé að rekja eitthvað í orðfæri manna. Hins vegar er því til að svara að Landsvirkjun þarf að sjálfsögðu að fara fram af fullri kurteisi og fullri nærgætni gagnvart þeim aðilum sem hún hefur samskipti við, hverjir svo sem þeir eru og hvar svo sem þeir eru.

Varðandi hins vegar þetta tiltekna mál sem eru virkjanir í neðri Þjórsá er staða málsins sú að á árunum 1914–1924 voru 95% af virkjanaréttindunum seld og í langflestum tilfellum var jafnframt samið um það hvernig aðgang handhafi virkjanaréttindanna ætti hafa að landi til þess að nýta réttindin og hvernig standa ætti að að því að bæta þann hugsanlega skaða á landi sem yrði vegna þeirra framkvæmda sem virkjanaleyfishafinn stæði fyrir. Það hefur ekki orðið vart við að andstaða sé við að semja við Landsvirkjun um það hvernig ganga eigi frá þeim málum sem hér um ræðir. Ég held að það að hönnun sé að einhverju leyti komin af stað og jafnvel lagt komin af stað sé einungis til þess fallið að hjálpa til við að meta það rask sem verður hugsanlega vegna virkjanaframkvæmdanna og greiða fyrir því að samkomulag náist um þær bætur sem landeigendur ættu að fá fyrir rask vegna mannvirkja.

Ég held því að forsendur fyrirspurnarinnar séu í raun rangar því að það hefur ekki orðið vart við það hjá landeigendum sem þarna eru og Landsvirkjun er í sambandi við að þeir vilji ekki semja við Landsvirkjun um þetta efni. Jafnframt hefur verið mjög gott samstarf milli Landsvirkjunar og sveitarstjórnanna og ég á ekki von á því að það verði einhver vandamál því tengd í því sem er fyrirséð um framkvæmdina. Ég hef því ekki uppi neinar fyrirætlanir um að beita mér fyrir því að Landsvirkjun láti af undirbúningi á því að virkja í neðri Þjórsá. Þetta er allt í, eins og sagt verður, eðlilegum farvegi, en eins og ég nefndi áðan og vil gjarnan endurtaka þá ber Landsvirkjun að fara fram af fyllstu kurteisi og nærgætni við þá er þarna eiga hlut að máli eins og alla aðra.