133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[13:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Forsendur fyrir eignarnámi vegna virkjanaframkvæmda í neðri hluta Þjórsár eru brostnar. Það kom skýrt fram í utandagskrárumræðu sem ég var með við hæstv. umhverfisráðherra fyrir nokkrum dögum þegar fram kom þverpólitísk andstaða við eignarnám vegna framkvæmdanna, hvort heldur var frá þingmönnum sjálfstæðismanna, Framsóknar eða stjórnarandstöðuflokkanna. Það á því að liggja skýrt fyrir að það pólitíska ofbeldi sem felst í eignarnámi er úr sögunni.

Hér er um að ræða 30 landeigendur og 4 ferkílómetra af grónu og ræktuðu landi sem færi undir lón. Náist ekki samningar eru framkvæmdirnar úr sögunni. Þess vegna eru útboð og hönnun á mannvirkjum á eignarjörðunum að sjálfsögðu algjörlega fráleit hafi samningar ekki gengið fram. Þannig er staðan augljóslega á málinu og út af því væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra á eignarnáminu af því að, ef ég man rétt, lýsti hann yfir stuðningi við eignarnámsákvæðið í Fréttablaðinu í janúar, (Forseti hringir.) en nú hafa komið fram önnur sjónarmið frá Sjálfstæðisflokknum í málinu.