133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

bótaskyldir atvinnusjúkdómar.

611. mál
[14:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson spyr hvað líði setningu reglugerðar um bótaskylda atvinnusjúkdóma, sbr. 5. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Ákvæði í lögum um bætur vegna atvinnusjúkdóma eru fá og má reikna með að ástæða þess sé að sjúkratryggingar og lífeyristryggingar almannatrygginga ná til allra sjúkdóma og afleiðinga þeirra án tillits til þess hver uppruni sjúkdómsins er. Heilbrigðisþjónusta er veitt samkvæmt sjúkratryggingum þegar um atvinnusjúkdóm er að ræða og ef atvinnusjúkdómur leiðir til örorku fær einstaklingur örorkubætur í samræmi við almennar reglur lífeyristrygginga.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar eru slys skilgreind sem skyndilegur, utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Atvinnusjúkdómar geta því varla talist til slysa. Þrátt fyrir það segir í 4. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, að til slysa teljist „sjúkdómar er stafa af skaðlegum áhrifum efna, geislaorku eða öðru hliðstæðu sem ríkjandi eru í hæsta lagi fáeina daga og rekja verður til vinnunnar“. Í 5. mgr. 22. gr. laganna er síðan kveðið á um að ákveða skuli „með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir“ samkvæmt slysatryggingakafla laganna.

Í lögunum eru sem sagt tilteknir sjúkdómar sem stafa af atvikum sem vara í hæsta lagi fáeina daga og hægt er að rekja til vinnunnar felldir undir hugtakið slys. Síðan skal ákveða með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar teljist bótaskyldir sem slys.

Ákvæði 22. gr. almannatryggingalaga tóku gildi árið 1964 og miðast við atvinnulíf sem er mjög frábrugðið atvinnulífinu í dag. Einnig er erfitt að tengja atvinnusjúkdóma skilyrðum laganna um bætur vegna vinnuslysa nema atvinnusjúkdómurinn verði vegna skyndilegs atburðar. Þegar lagaramminn er með þessum hætti er vandasamt að setja reglugerð um að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir. Þess má þó geta í þessu sambandi að skaðabótalög gilda að öðru leyti um ábyrgð vinnuveitenda.

Virðulegur forseti. Ég tel að endurskoða þurfi ákvæði laga um almannatryggingar, um bætur vegna atvinnusjúkdóma, og tel nauðsynlegt að samhliða þeirri endurskoðun verði skilgreint hvaða sjúkdómar teljist atvinnusjúkdómar. Málið tengist umræðum um tilmæli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 2003/670, um evrópska skrá yfir atvinnusjúkdóma, og tilmæli Alþjóðavinnumálaþingsins nr. 194, um skrá yfir atvinnutengda sjúkdóma.

Félagsmálaráðuneytið hefur nýlega ákveðið að leggja til að fyrrgreind tilmæli Evrópusambandsins verði ekki felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið enda sé ekki um bindandi gerð að ræða. Hins vegar óskaði það ráðuneyti í desember sl. eftir því við Vinnueftirlitið að kannað verði hvort ástæða sé til að koma upp íslenskri skrá fyrir atvinnusjúkdóma. Ég tel að slíka könnun ætti að gera í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins og endurskoða ákvæði almannatryggingalaga um bætur vegna atvinnusjúkdóma samhliða.

Virðulegur forseti. Þetta mál er afar flókið og snýst ekki eingöngu um að setja reglugerð en eins og áður er sagt þarf að líta til hugsanlegra lagabreytingatilmæla Evrópusambandsins og tilmæla Alþjóðavinnumálaþingsins.