133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

585. mál
[14:20]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um bólusetningar gegn algengri veiru sem valdið getur leghálskrabbameini.

Fullvíst er talið að vörtuveirur sem nefnast HPV, Human Papiloma Virus, séu orsök leghálskrabbameins. Þróað hefur verið bóluefni gegn þessari veiru. Niðurstöður umfangsmikilla fjölþjóðlegra rannsókna, sem rúmlega 700 íslenskar stúlkur tóku m.a. þátt í, sýndu að bóluefnið veitir vörn gegn fjórum afbrigðum HPV-veirunnar en tvö þeirra afbrigða valda flestum tilfellum leghálskrabbameins.

Sýking af völdum vörtuveira er algengur kynsjúkdómur. Er talið að 40–50% kvenna smitist af HPV fyrir 25 ára aldur. Algengi smits lækkar svo eftir 30 ára aldur og eftir 45 ára aldur er algengi um 4%. Skýringin er væntanlega sú að líkaminn vinnur í flestum tilvikum bug á sýkingunni og eldri konur eru því ónæmari fyrir veirunni. Þrátt fyrir að umtalsverður árangur hafi náðst hér á landi í baráttunni gegn leghálskrabbameini með kerfisbundinni leit að forstigsbreytingum sjúkdómsins, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, greinast að jafnaði um 16 konur á ári hverju með sjúkdóminn.

Það eru vissulega mikil tíðindi að hægt sé að koma í veg fyrir krabbamein með bólusetningum. Smitsjúkdómar eru í sumum tilvikum orsök krabbameins. Ég tel mikilvægt að huga að bólusetningu gegn leghálskrabbameini hér á landi. Vanda þarf til verksins því að bóluefnið er afar dýrt. Þótt bóluefnið verndi gegn smiti af völdum þeirra vörtuveira sem oftast valda krabbameini nær það enn sem komið er ekki til allra stofna veirunnar. Því er mikilvægt að halda áfram skipulegri leit að leghálskrabbameini þótt bólusetning meðal stúlkna verði hafin hér á landi. Ef bólusetning á að skila árangri þarf að bjóða stúlkum bólusetningu áður en þær ná kynþroskaaldri samtímis því sem öflugu leitarstarfi verður haldið áfram.

Vegna mikilvægis þessa máls hef ég falið sóttvarnaráði að kanna nánar kostnaðarhagkvæmni bólusetningar gegn leghálskrabbameini og að koma með tillögur um útfærslu bólusetninga gegn sjúkdómnum ef það verður niðurstaðan að fara út í slíkar bólusetningar.

Hv. þingmaður minntist á umræðuna í Bandaríkjunum. Það er rétt að verið er að skylda allar stúlkur í ákveðnu ríki þar í þessar bólusetningar og hefur það valdið miklu uppnámi. Í því ríki, ef ég man rétt, er fylkisstjórinn repúblikani. Hann heldur utan um málið og keyrir það áfram en flokksfélagar hans hafa hnýtt í hann af því að þeir telja að þetta valdi því að stúlkur fari út í snemmbært kynlíf o.s.frv. Orðræðan, sem að hluta til er sprottin af trúarlegum rótum, er á þann veg en fylkisstjórinn hefur sýnt sérstaka forustu í málinu og mikil og heit umræða hefur skapast.

Virðulegur forseti. Ég ítreka það að vegna mikilvægis þessa máls hef ég falið sóttvarnaráði að kanna kostnaðarhagkvæmnina af því að fara út í slíkar bólusetningar. Niðurstöður rannsókna lofa góðu en bóluefnið er mjög dýrt þannig að það þarf alltaf að vega kostnað inn í. Sóttvarnaráð er til þess bært að vega og meta þessi sjónarmið og ég á von á því að fá tillögur og niðurstöður frá því þegar umræðan hefur farið fram þar innan dyra.

Mér finnst þetta mjög spennandi mál. Ég tel mjög æskilegt ef inngripið er svona lítið, þetta er bara bólusetning, að hægt sé að koma í veg fyrir krabbamein en það þarf að vigta kostnaðinn inn í. Mér finnst þetta mjög spennandi mál.