133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

585. mál
[14:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sæunn Stefánsdóttir) (F):

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. heilbrigðisráðherra að um mjög spennandi mál er að ræða. Ég fagna því sérstaklega undirtektum hæstv. ráðherra og því frumkvæði sem hún hefur sýnt með því að beina því í þann farveg að fela sóttvarnaráði svokallaða kostnaðarhagkvæmnisskoðun. Það er brýnt við slík úrlausnarefni að taka ávallt kostnaðinn inn í myndina. Það er einnig brýnt að hægt verði að tryggja að bólusetningin verði það almenn að yfir 90% stúlkna á umræddum aldri muni nýta sér hana svo að þetta skili þeim árangri sem að er stefnt.

Við höfum verið það lánsöm hér á landi að bólusetningar eru almennar og hafa skilað þeim árangri sem sóst var eftir og því verðum við að halda áfram. Skipulagða leitin er líka mikilvæg, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í svari sínu, við eigum ekki að slaka á í þeim efnum. En ef við getum með þessum hætti lækkað enn frekar tíðni leghálskrabbameins í íslenskum konum höfum við allt að vinna. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að fylgja fast eftir frumkvæði sínu. Ég vona að sóttvarnaráð skili niðurstöðum sínum fljótlega og ég mun fylgjast með málinu áfram.