133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:32]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Spurt er í fyrsta lagi:

„Hefur samgönguráðuneytið gert úttekt á því hvaða möguleikar felast í Marco Polo áætlun Evrópusambandsins fyrir íslenskt samgöngukerfi?“

Svar mitt er þetta: Marco Polo áætlanirnar miða að því að færa millilandaflutninga á vörum af vegum á aðra samgöngumáta, svo sem skipgengar vatnaleiðir og járnbrautir. Þar sem hér er eingöngu miðað að því að draga úr millilandaflutningum verður ekki um áhrif á íslenskt samgöngukerfi að ræða.

Í annan stað er spurt:

„Hefur ráðuneytið kynnt skipafélögum sérstaklega möguleika sem felast í Marco Polo áætluninni?“

Svar mitt er þetta: Marco Polo 1 var kynnt fyrir íslenskum hagsmunaaðilum. Haft var samband við hvert og eitt skipafélag og Samband íslenskra kaupskipaútgerða. Niðurstaðan varð sú að líklegt væri að íslensk skipafélög væru að fækka áfangastöðum skipa sinna í Evrópu sem kallar á meiri akstur, þ.e. meiri flutninga á vegum andstætt því sem stefnt er að með Marco Polo áætluninni. Þá kom upp það sjónarmið að styrkur í þrjú ár til að koma hugmynd á laggirnar dygði ekki til. Því var ljóst að áhugi var þá ekki fyrir hendi hér á landi til þess að nýta sér það sem Marco Polo bauð upp á í Evrópu.

Þriðji liður spurningarinnar svara sér sjálfur þar sem þetta hefur verið kynnt mjög rækilega fyrir skipafélögunum.

Í fjórða lagi er spurt:

„Hvaða þýðingu telur ráðherra að þessi áætlun geti haft fyrir Íslendinga?“

Svar mitt er þetta: Þó að Marco Polo áætlunin hafi ekki áhrif á flutninga á vegum á Íslandi gæti hún engu að síður haft þýðingu fyrir Íslendinga. Sem dæmi má taka ef íslenskt skipafélag sæi sér hag í því að draga úr akstri með vöru sína á markaði í Evrópu og sigla þess í stað með hana sem næst markaðssvæðunum. Benda má á þátttöku íslenskra aðila í verkefnum sem geta hlotið styrk samkvæmt reglum þeim sem gilda um áætlunina, t.d. að byggja upp siglingar á milli svæða þar sem flutningsmöguleikar á vegum eru takmarkaðir. Ágætt dæmi um þetta gæti verið siglingar á milli Norður-Spánar og Suður-Frakklands en slík þjónusta mundi létta umferð á vegum yfir Pýreneafjöllin.

Í samgönguráðuneytinu er fylgst með framgangi Marco Polo áætlananna og hvaða árangur verður af þeim, þar með talið hvaða hagur er að því að færa flutninga af vegum og hvernig hægt væri að nýta þá reynslu Evrópusambandsins við hagræðingu í samgöngukerfinu hér á landi. Strandflutningar hér við land eru jafnframt skoðaðir í því ljósi og hafa átt sér stað umræður af hálfu samgönguráðuneytisins bæði við skipafélög og hagsmunaaðila í landshlutunum í þeim tilgangi að leita allra hugsanlegra leiða til þess að draga úr kostnaði við flutning. Marco Polo áætlunin kemur ekki að gagni fyrir okkur að öðru leyti en því að við getum lært af því sem fram fer á þeim vettvangi, eins og ég sagði fyrr.

Hið stóra viðfangsefni okkar er auðvitað að byggja upp vegakerfið eins hratt og við getum úti um land. Það er árangursríkasta aðgerðin til þess að lækka flutningskostnað og stytta leiðir, að byggja upp vegina með fullri burðargetu þannig að flutningskostnaðurinn geti lækkað, það er hið stóra viðfangsefni. Við þekkjum það að skipafélögin hættu að sigla strandsiglingarnar vegna þess að þau töldu það ekki hagkvæmt. Ekki vegna þess að það séu svo litlir skattar á þungaflutninga í landflutningum. Sumir hv. þingmenn og ýmsir utan þingsins sjá þá leið vænsta og besta að stórhækka skatta á flutninga eftir vegum innan lands til þess að reyna að færa þannig með slíkri aðgerð flutningana út á sjó. Ég tel að það sé ekki skynsamlegur kostur. Við eigum umfram allt að leggja áherslu á að byggja upp vegakerfið, eins og við erum að gera, og eftir þeim leiðum sem við getum að auðvelda siglingar með ströndinni þar sem það telst hagkvæmt.

Ég vil bara undirstrika það, virðulegur forseti, að skipafélögin tóku þessar ákvarðanir vegna þess að þau töldu að þau mundu þjóna best flutningum, þjóna best viðskiptavinum sínum með landflutningum og á það verður að horfa.