133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Eitt af því sem hæstv. ráðherra sagði var að áætlunin gæti haft þýðingu og að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nóg að fá styrk í þrjú ár.

Ef flutningarnar eru styrktir í Noregi er full ástæða til þess að menn fari yfir málin aftur, hvort þetta gæti ekki gengið hér líka. Hæstv. samgönguráðherra er alltaf að burðast með þetta lík í lestinni að samgönguráðherrann á Íslandi lagði niður sjóflutninga og menn hugsuðu ekki fram í tímann. Uppi stöndum við með það að vegirnir eru að sligast undan þessum gríðarlegu þungaflutningum og hæstv. ráðherra reynir að bjarga sér á því að menn séu að heimta hærri skatta til að koma í veg fyrir þetta. Það er ekki þannig. Allir vilja auðvitað að vegir landsins séu betri og þoli flutningana sem á þá þarf að leggja en það er engin ástæða til þess að flytja allar vörur eftir vegunum. Full ástæða er til að styðja við bakið á þeim aðilum sem mundu vilja flytja vörur á sjó. Hægt er að gera það með ýmsum leiðum (Forseti hringir.) og ég hvet til þess að menn skoði þær betur.