133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[14:48]
Hlusta

Frsm. landbn. (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund B. Helgason ráðuneytisstjóra og Ólaf Friðriksson, skrifstofustjóra frá landbúnaðarráðuneyti, Sigurgeir Þorgeirsson og Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Einar Örn Davíðsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og Gísla Tryggvason, talsmann neytenda.

Umsagnir bárust frá Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu, tollstjóranum í Reykjavík, Alþýðusambandi Íslands og talsmanni neytenda.

Meginefni frumvarpsins er að skapa landbúnaðarráðherra traustan lagagrundvöll til að úthluta öðrum tollkvótum en þeim sem úthlutað er á grundvelli landbúnaðarsamnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og tollkvótum um viðbótarmagn vegna markaðsaðstæðna.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar frá 9. október 2006 um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs. Hluti þessara aðgerða snýr að samningum um gagnkvæmar tollalækkanir og bættan markaðsaðgang gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands. Í framhaldinu var efnt til samningaviðræðna við Evrópusambandið um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur og náðust samningar um síðustu áramót sem taka væntanlega gildi 1. mars nk. Samkomulagið er gert á grundvelli 19. gr. EES-samningsins sem kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EES-aðildarríkjanna og Evrópusambandsins. Umrætt samkomulag er hið fyrsta sem Ísland og Evrópusambandið hafa gert um viðskipti á grundvelli þeirrar greinar. Í samkomulaginu eru m.a. veittir gagnkvæmir tollkvótar án aðflutningsgjalda í umfangi sem ekki hefur áður þekkst í milliríkjasamningum Íslands. Ísland veitir ESB-kvóta fyrir kjöt, kjötvörur, kartöflur, rjúpur og ost, en fær í staðinn kvóta fyrir skyr, smjör og pylsur.

Gildissvið frumvarpsins er bundið við tolla og hefur ekki áhrif á heilbrigðiskröfur sem gerðar eru til innfluttra matvæla.

Nefndin leggur til ýmsar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á nokkrum greinum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þess efnis að leiðréttar eru tilvísanir í núgildandi tollalög, nr. 88/2005.

Í öðru lagi er lögð til orðalagsbreyting á 4. gr. frumvarpsins á þá leið að 2. efnismgr. verði felld brott og efni hennar fært í 1. efnismgr.

Þær breytingar sem þarna er um að ræða má segja að séu tæknilegar en ekki efnislegar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Einar Már Sigurðarson og Gunnar Örlygsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jóhann Ársælsson og Jón Bjarnason skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Undir álitið skrifa Jón Kristjánsson, varaformaður, Kjartan Ólafsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara, Guðmundur Hallvarðsson, Ólafur Níels Eiríksson og Jón Bjarnason, með fyrirvara.