133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[14:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál sem hv. þm. Jón Kristjánsson hefur mælt fyrir við 2. umr. er svo sem ekki stórt í sniðum og varðar fyrst og fremst tæknileg atriði hvað varðar ráðstöfun á tollkvótum til innflutnings á landbúnaðarvörum og reyndar líka þá til gagnkvæms útflutnings. Þó er þetta á vissan hátt stórmál og snertir þá stefnu sem verið er að sigla út í með því að opna á t.d. aukinn innflutning á landbúnaðarvörum sem eru m.a. framleiddar hér á landi.

Þess vegna er nauðsynlegt að átta sig á hvaða skilyrði innflutningur þessara vara verður að uppfylla. Það er talað um að gefa hér heimildir til að flytja inn til viðbótar án tollkvóta eitthvað um 200 tonn af svínakjöti og eitthvað af kjúklingakjöti og nautakjöti. Þær vörur eru framleiddar hér, og líka lambakjöt, og hér á landi eru gerðar miklar kröfur til alls framleiðsluferlisins. Við leggjum áherslu á að það sé gert og þjóðin er sammála um að gera ríkar gæðakröfur til innlendrar framleiðslu. Þjóðin er líka sammála um að þegar vörurnar koma í verslanir til neytenda séu þær merktar þannig að neytandinn viti hvaðan varan kemur, geti rakið feril hennar. Þannig er gæðaeftirlitið tryggt. Um þetta eru allir sammála, en þá verðum við líka að gera nákvæmlega sömu kröfur til hliðstæðra innfluttra matvæla, að gerðar séu nákvæmlega jafnmiklar, og alls ekki minni, kröfur um heilbrigði, hollustu, innihald og rekjanleika vörunnar og allt sem snertir gæðastuðla varðandi hana. Ég verð að segja að þetta er ekki tryggt í innflutningi á landbúnaðarvörum. Í nefndinni komu fram upplýsingar um að ekki væri hægt að tryggja þetta, a.m.k. væri orðrómur um að inn í landið kæmu vörur sem ekki uppfylltu þessa gæðastaðla. Framsögumaður nefndarálitsins, hv. þm. Jón Kristjánsson, lagði einmitt áherslu á það atriði í nefndarálitinu að það mætti ekki gera minni gæða-, hollustu- og heilbrigðiskröfur til þessarar vöru þó að hún sé innflutt en til innlendrar vöru.

Þetta er samningur sem verið er að gera við Evrópusambandið. Það er sagt að það eigi að vera tryggt að innfluttar vörur komi frá Evrópusambandslöndum og hafi farið eftir ströngustu heilbrigðis- og hollustukröfum sem þar eru gerðar. Því er þó ekki að leyna að sá grunur læðist að manni að kerfið sé ekki pottþéttara en svo að ýmsar kjötvörur geti komið inn í Evrópusambandslöndin frá öðrum löndum þar sem eftirlit er kannski enn minna með framleiðslunni og verið síðan sendar áfram til Íslands, kannski pínulítið meðhöndlaðar þannig að þær flokkist sem iðnaðarkjötvörur eins og kjúklingabringurnar sem við höfum rætt um, kjúklingabringur sem sendar eru hingað jafnvel ísprautaðar salti og öðru slíku. Þá eru þær orðnar unnin kjötvara þó svo að hún keppi við ferska kjúklinga. Þetta vildi ég í fyrsta lagi segja, að á engan hátt má gera minni kröfur til hollustu, rekjanleika og gæða innfluttu vörunnar en þeirrar innlendu.

Annað er það sem lýtur að úthlutun á tollkvótanum. Hér er verið að úthluta takmörkuðum gæðum. Menn geta haft sína skoðun á því hvort það er rétt, en það er heimild til að flytja inn ákveðið magn af tilgreindum kjötvörum án aðflutningsgjalda. Þá skiptir líka miklu máli að aðilar eigi sem jafnastan aðgang að því að flytja þessar vörur inn. Við vitum að eitt helsta vandamál matvörumarkaðarins hér er fákeppni. Sumir reyna að bera á móti því og segja að það stuðli að lægra vöruverði að hafa fáa aðila, helst bara einn, þá ætti hann að geta verið með vörurnar á lægsta verðinu. Það getur vel verið en ég er ekki viss um að sú sé samt reyndin. Þegar við tölum um að samkeppnin eigi að halda bæði verði niðri og gæðum uppi hljótum við að hafa áhyggjur af því að matvörumarkaðurinn er kominn á hendur tveggja, í hæsta lagi þriggja, aðila. (Gripið fram í.) Já. Þá hljótum við að hafa áhyggjur af því ef einstakir aðilar, einn eða tveir af þessum, fá síðan allan innflutninginn.

Við þekkjum líka þetta stríð sem nú er í gangi. Það er varla hægt að kalla það annað en stríð þegar ákveðnir hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu, sem sjá sér hag í því að flytja inn t.d. landbúnaðarvörur, ná þannig markaðnum undir sig og geta deilt og drottnað með álagningu á honum o.s.frv., hafa stillt upp innflutningnum gegn innlendri framleiðslu. Það er talað um að innlenda framleiðslan sé dýr og sumir stjórnmálamenn sem meira að segja hafa talið að þá eigi að taka þá hátíðlega hafa sagt að verð á landbúnaðarvörum héldi uppi háu matvælaverði í landinu í heild sinni. Sem betur fer taka fæstir mark á svona orðum en engu að síður er það alvarlegt og þá skiptir máli hvernig með er farið. Segjum að einhver fái heimild til að flytja inn tollfrjálst 200 tonn af svínakjöti (Gripið fram í.) og sé umhugað um að koma íslenskri framleiðslu á kné til að fá aukinn innflutning, þá stillir hann náttúrlega upp þessari vöru, innfluttu svínakótelettunum, við hliðina á þeirri íslensku og síðan er honum í lófa lagið að leggja ekkert á þessar innfluttu kótelettur um tíma en hafa þær íslensku á fullu verði. Þannig getur munað nokkur hundruðum kr. á kílói, jafnvel meira, og viðkomandi hefur markaðinn í hendi sér. Þetta finnst mér ekki réttlátt. Þetta finnst mér hreinlega óréttlátt, en þetta viðgengst og innflutningsaðilinn hefur á þessu möguleika.

Við ræddum aðeins í nefndinni hvort það væri möguleiki að skylda viðkomandi leyfishafa sem fær að flytja inn kjöt til að selja það innflutta kjöt á hliðstæðu verði og sams konar kjöt sem hann er að selja af íslenskri framleiðslu. Annars má segja að innflutningnum sé beitt til að skekkja samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu. Það getur ekki verið meiningin. (Gripið fram í: Hver er meiningin?) Ef það er meiningin er það hvorki sérstaklega góður vilji gagnvart íslenskri landbúnaðarframleiðslu né gagnvart íslenskum neytendum. Hagur neytenda á Íslandi felst í því að hafa góða og holla vöru á sem lægstu verði og að framboðið sé líka öruggt til lengri tíma. Það er tryggt með því að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu. Mér finnst ótækt ef hægt er með því að fá niðurfellingu á tollum á innfluttum alveg hliðstæðum kjötvörum og framleiddar eru hér á landi að niðurbjóða eða skekkja samkeppnisstöðuna á þeim grunni einum gagnvart innlendri framleiðslu. Ég bara segi það alveg hreint út. Ég tel að það ætti ekki að vera heimilt þó svo að menn tali um samkeppnismál í því sambandi. Stórar verslunarkeðjur munar ekkert um að selja 100 tonn af svínakjöti án álagningar til að ná þeim markmiðum sínum að koma innlendri framleiðslu á kné og fá óheftan innflutning. Þær munar ekkert um slíkan fórnarkostnað ef viljinn er í þá veruna. Þetta finnst mér að eigi að kanna, hvort ekki eigi bara að skylda aðila um leið og þeir fá úthlutað tollkvóta verði þeir skyldaðir til að beita einhverri lágmarksálagningu hliðstætt því sem viðgengst í sömu vöruflokkum af sömu verslunum þannig að þetta eitt sé ekki verið að nota í ósanngjörnu áróðursstríði eða ósanngjarnri samkeppni með þeim óheillavænlegu afleiðingum sem af geta orðið.

Annað vildi ég líka nefna. Það er náttúrlega verið að gefa leyfi til að flytja inn með tollafsláttum eða niðurfellingu tolla þar sem eru þessir tollkvótar, innflutningskvótar og það er þá alveg fráleitt að slíkir tollkvótar séu framseljanlegir. Ég vil spyrja hv. varaformann landbúnaðarnefndar, hv. þm. Jón Kristjánsson, hvort ekki sé alveg öruggt að þessir tollkvótar séu óframseljanlegir. Ef við tveir sameinuðust t.d. um að fá að flytja inn 50 tonn af svínakjöti tollfrjálst — sem við mundum ekki fá, við hv. þm. Jón Kristjánsson — væri ekki alveg útilokað að við gætum fénýtt okkur leyfið og selt það öðrum, bara leyfið sem slíkt? Það er alveg stórhættulegt ef við opnum á það að tollkvótar á innfluttum landbúnaðarvörum verði framseljanlegir þannig að menn geti keypt tollkvótana ívilnandi á þúsundkall og síðan selt þá aftur næsta manni á 2 þús. kr. Þá værum við komin út á hála braut. Það verður að vera alveg tryggt að þessir tollkvótar verði ekki framseljanlegir á þann hátt. Ef viðkomandi sem fær úthlutunina notar ekki kvótana verður hann bara að skila þeim inn til þess aðila sem úthlutaði honum á sínum tíma.

Þessum atriðum vildi ég koma á framfæri, frú forseti. Okkur ber að standa vörð um hollustu og gæði vörunnar. Í því eru fólgnir hagsmunir neytenda og framleiðenda. Við megum hvorki gefa eftir í þessum þáttum né heldur megum við opna á brask með tollkvóta, tollkvóta eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir að veittir verði. Ég vil leggja áherslu á það, frú forseti.