133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:10]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kom víða við í ræðu sinni. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að í sambandi við þessi kvótakaup eru dæmi um að aðilar sem framleiða osta kaupi kvótann en flytji aldrei inn ostana þannig að þeir hafa með þessu áhrif á innanlandsmarkaðinn.

Varðandi þá stöðu sem er í sambandi við samkeppnismálin er alveg ljóst að 80% af matvörunni eru í höndum þriggja stærstu söluaðilanna þannig að það er við margt að fást. Ég held að það sé bara af hinu góða að hafa skynsamlegan tollkvóta á landbúnaðarvörum.

Um upprunavottorðið sem hv. þingmaður kom inn á varðandi kjúklingabringur og aðra matvöru sem flutt er annars staðar frá hef ég kynnt mér það frá því að við vorum saman á fundi í landbúnaðarnefnd á þriðjudagsmorgun. Það var fullyrt við mig að upprunavottorð innan ríkja EES væru mjög trúverðug og það hefur margsinnis verið reynt og sýnt og sannað að þau upprunavottorð sem send eru eru ekki út í loftið.

Varðandi svo sláturhúsin og hreinleikann kom það einmitt fram á fundi í landbúnaðarnefnd ekki alls fyrir löngu að mjög er deilt um þann kostnað sem sláturhúsin verða að greiða til héraðsdýralækna og annarra vegna vottunar. Það hefur komið í ljós að þeir eru jafnvel ekki viðstaddir þegar slátrun fer fram. Þeir eru á staðnum deginum áður og svo jafnvel deginum eftir að slátrunin hefur farið fram.

Ég tel að það sé bara af hinu góða fyrir neytendur að leyfður sé (Forseti hringir.) innflutningskvóti landbúnaðarvara.