133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar umræðan er óþægileg tala menn gjarnan um eitthvað annað. Þess vegna talaði hv. þm. Jón Bjarnason um heilbrigðismálin gagnvart innflutningi á kjöti. Þess vegna breytti hæstv. landbúnaðarráðherra blómunum í grænmeti þegar hann svaraði ræðu minni. Ég spurði um blómin en ekki grænmetið en hæstv. ráðherra fannst þægilegra að tala um grænmeti en blóm. Hann hélt því fram að ég vildi uppboð á kvótum. Það var ekki það sem ég sagði.

Uppboðsfyrirkomulagið er hæstvirts ráðherra. Hæstv. ráðherra hefur undanfarin ár látið bjóða þetta upp. Samkvæmt reglunum getur hann valið á milli þess að hafa uppboð eða láta draga úr hatti sínum. Ég bað hæstv. ráðherra að upplýsa um það hvort hann hefði ekki önnur ráð en hattinn eða uppboðið til að neytendur fengju arðinn af innflutningnum í lægra vöruverði. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki neinu.

Ég tel að möguleikar séu á að koma arðinum til neytenda með því að breyta fyrirkomulaginu þannig að valið sé á milli innflutningsaðilanna með öðrum hætti. Þeir geta boðið hámarksverð, bæði í heildsölu og smásölu, í tollkvótana og þá yrðu þeir valdir út frá þeirri forsendu. Þá fengju neytendur arðinn.