133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[16:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur auðvitað skýrt fram í svari hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin veit ekki hvað hún er að gera. Hún veit ekki nákvæmlega hvaða afleiðingar þau lög sem taka gildi á morgun hafa. Hún kom hér hins vegar í haust og sagði að þetta mundi leiða til 16% verðlækkunar.

Nú kemur hins vegar hæstv. ráðherra og segir: Framsóknarflokkurinn hefur reiknað þetta upp á nýtt og það er hugsanlegt að þetta leiði til 9–12% verðlækkunar. Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra er að staðfesta það að hann fór með blekkingar (Landbrh.: 12–16% til langtíma.) ásamt hæstv. fjármálaráðherra í haust. Hann er að viðurkenna það — og hér kemur hinn sökudólgurinn í málinu. Þannig liggur í þessu.

Hæstv. ráðherra veit auðvitað ekkert um hvað matvæli muni lækka í krafti þeirra laga sem taka gildi á morgun. Verra þykir mér þó að hæstv. ráðherra kemur hér og afneitar sjálfum sér. Hann kemur og segir að sú stefna sem Samfylkingin lagði fram í haust hafi verið út í hött og, eins og hæstv. ráðherra sagði, hafi verið okkur til skammar. Hafi það verið svo hefur hún líka verið hæstv. ráðherra til skammar, því að hvaðan kom þessi stefna? Hún kom úr þeim yfirlýsingum starfsmanna hans fyrir þremur árum um að í kjölfar Doha-samningalotunnar yrði íslenskur landbúnaður í fyrsta lagi að taka á sig afnám helmingslækkunar innflutningsverndar. Þetta voru nú bara starfsmenn hans sem sögðu þetta. Við sögðum þetta síðan í vor.

Númer tvö, það sem við sögðum síðan: Afgangurinn af tollverndinni verður ekki aflagður nema með aðlögunarsamningum og í samráði við landbúnaðinn. Hvaðan kemur sú stefna? Frá honum sjálfum. Svona gerði hann þetta varðandi grænmetisframleiðsluna. Hvers vegna skyldi það sem þar gildir ekki líka ganga upp varðandi annað? Það er af því að þessi hæstv. ráðherra hefur ekki (Forseti hringir.) trú á íslenskum landbúnaði. En (Forseti hringir.) það höfum við í Samfylkingunni.