133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:32]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli á því enn og aftur að heilbrigðisráðherra hefur ekki endurnýjað þjónustusamning við SÁÁ. Það eru tvær hliðar á þessu máli, annars vegar sú staðreynd að veittar skuli rúmar 500 millj. til samtakanna án þess að gerður sé samningur um nýtingu fjárins og hins vegar það ófremdarástand sem er að skapast í meðferðarmálum vegna lágra fjárframlaga sem byggjast á gömlum forsendum.

Það hefur margoft verið sýnt fram á þjóðhagslegan ávinning af starfsemi SÁÁ og ætti ekki að vefjast fyrir neinum að þar er mannslífum og fjölskyldum bjargað. Það eru um 2.400 innlagnir á ári og löngu orðið ljóst að það þarf að stórauka fjárframlög til SÁÁ eigi samtökin að vera þess megnug að mæta sívaxandi þörf fyrir meðferð og nú er staðan sú að tap á rekstri samtakanna er orðið of mikið til þess að þau geti brúað bilið með frjálsum framlögum. Annaðhvort verður að grípa til niðurskurðar á þjónustunni eða starfsemin verður hreinlega gjaldþrota.

Ríkisendurskoðun hefur nú þegar gert athugasemdir við heilbrigðisráðherra um að SÁÁ borgi of stóran hluta meðferðarinnar. Jafnframt hefur Ríkisendurskoðun gert athugasemdir við að ráðherra hefur ekki endurnýjað þjónustusamning við SÁÁ síðan í desember 2005. Fagleg meðferð kostar, en hún er líkleg til að skila fólki aftur út í þjóðfélagið. Samkvæmt útreikningum Guðmundar Ólafssonar hagfræðings er nóg að einn af hverjum 10 vímuefnasjúklingum nái bata til þess að meðferðin borgi sig fyrir þjóðfélagið. Þrátt fyrir þessar staðreyndir berast okkur þær upplýsingar frá Hagstofunni að á föstu verðlagi hafi ríkisstjórnin skorið fjárframlög til meðferðarmála niður um 30% á 10 árum.

Frú forseti. Þann 19. febrúar sl. og aftur þann 21. febrúar átti ég orðastað við hæstv. ráðherra og enn á ný spyr ég: Hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra gera nýjan þjónustusamning við SÁÁ, og þá hvenær?