133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:37]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef að undanförnu ítrekað reynt að fá hv. þm. Steingrím J. Sigfússon til að skýra breytta afstöðu sína til virkjana í neðri hluta Þjórsár. Hv. þingmaður hefur hins vegar kosið að fara undan í flæmingi og í engu svarað nema með skætingi og síðast í fyrirspurnatíma þingsins í gær.

Af því að Vinstri grænir eru nýbúnir að uppgötva netið á leið sinni inn í nútímann og hv. þingmaður er væntanlegur fyrsti yfirríkisnetlögreglustjóri í íslenska alþýðulýðveldinu er rétt að játa það, og ég geri það fúslega, að ég hef gerst sekur um netglæp. Ég hef nefnilega gerst sekur um þann hryllilega netglæp að leita á netinu að ræðum hv. þingmanns um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þá kemur í ljós, hæstv. forseti, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í þessum sal 22. nóvember 2005 að virkjanir í neðri hluta Þjórsár væru mjög hagkvæmar og mjög eðlilegur virkjunarkostur og, það sem meira er, þær væru meira og minna tilbúnar.

Þann 13. febrúar 2007 segir hv. þingmaður hins vegar að hann sé algerlega andvígur því að ráðist verði í virkjanir í neðri hluta Þjórsár. (Gripið fram í.) Hver er skýringin á þessari breyttu afstöðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar? Hvers vegna getur formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki skýrt út af hverju hann er nú alfarið á móti virkjunum sem hann taldi áður mjög eðlilegar og hagkvæmar? Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að fara undan í flæmingi og svara með skætingi. Hv. þingmaður verður að gera þinginu, og ekki síður þjóðinni, grein fyrir því hvað ræður þessari breyttu afstöðu. Ég geri kröfu til þess, hæstv. forseti, að hv. þingmaður svari því.