133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Okkur greinir varla mikið á um það í hv. þingi miðað við þær upplýsingar sem við höfum að fíkniefnavandinn fer vaxandi. Þess vegna held ég að við verðum einfaldlega að horfast í augu við að það þarf meiri fjármuni til að styrkja samtök eins og SÁÁ til að takast á við vandann. Ef það er vandamálið held ég að annar eins vandi hafi verið leystur í fjáraukalögum. Ráðherrann nefndi áðan að það skorti fjármuni til að takast á við málið.

Ég hygg, hæstv. forseti, að flestir landsmenn séu sammála um að starfsemi SÁÁ sé einhver markverðasti áfanginn í því að halda hér uppi öflugu starfi varðandi fíkniefnavarnir og til að reyna að koma fólki á réttan kjöl, ef svo má orða, sem hefur farið inn á þær brautir.

Það er ámælisvert að ekki skuli nást samkomulag við SÁÁ um starfsemi þeirra þannig að starfsemin gangi ekki á sínar eigin eignir og tefli í tvísýnu þeirri heilbrigðisþjónustu sem við viljum að stofnunin veiti. Ég vænti þess að við séum öll sammála um að nota þekkingu og reynslu þeirra sem starfa á SÁÁ til að berjast gegn fíkniefnavandanum. Við erum þá fyrst og fremst að tala um fjármuni, hæstv. forseti, og ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, ég minnist þess ekki að við í þessum sal höfum lagst gegn því að auka fé til að takast á við þennan vanda. Ég skora nú á hæstv. heilbrigðisráðherra að taka af krafti á því að leysa þessi mál og ríkisstjórnin hlýtur að geta mótað stefnu í því hvað þurfi til viðbótar af fjármunum til að ná þessum málum saman. Varla ætlast menn til þess að eignirnar hjá SÁÁ brenni upp í heilbrigðisvandanum.