133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breytingar á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl.

654. mál
[11:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa svarað þeim spurningum mínum sem að þessu lutu. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því þegar hann mælti fyrir frumvarpinu og ég hafði skimað yfir það að þarna væri um að ræða nokkra breytingu. Breytingin felur vissulega í sér þrengingu að því er varðar möguleika einstaklinga til að hasla sér völl í þessari tegund viðskipta en jafnframt er þarna slegið vel undir þann grundvöll sem þýðingarmikil samtök, eins og þau sem stunda björgunarstörf og efla og tryggja öryggi okkar annars vegar og hins vegar íþróttafélög sem hafa haft umtalsverðar tekjur af þessu, hafa á þessu sviði. Ég tel það jákvætt og vil gjarnan stuðla að því að þetta mál hljóti afgreiðslu fyrir þinglok, og vona að ég mæli þar fyrir hönd míns flokks. Þetta er nákvæmlega ein af þeim spurningum sem vöknuðu eftir ákveðnar deilur sem risu um síðustu áramót um þessa tegund viðskipta.

Hins vegar bendi ég hæstv. ráðherra á að þetta er kannski ekki beinlínis í anda frjálshyggjunnar. Má vera að hann sé á gamals aldri að hverfa frá henni og væri það ákaflega gott og honum að öllu leyti til fremdar. Ég nefni þetta sérstaklega og þó að mér sé ekkert sárt um að hæstv. ráðherra dragi kannski úr frjálshyggju sinni á þessu sviði gæti það leitt til þess að við afgreiðslu nefndarinnar kæmu fram mótmæli frá þessum aðilum sem gætu leitt til tafa á þessu sviði. Ég skora á hæstv. ráðherra að láta ekki undan neinum mótbárum á þessu sviði því að ég tel þetta þarft mál og ég hvet hann til að halda sinni gamalgrónu þrákelkni eins og jafnan þegar um er að ræða þau mál sem hann hefur mikla trú á.