133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breytingar á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl.

654. mál
[11:19]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa það fyrst að ég hafði ekki lesið þetta frumvarp til laga yfir áður en það kom á dagskrá, enda var búið að upplýsa mig og væntanlega aðra þingmenn í þingflokki Samfylkingarinnar um að hér væri á ferðinni meira og minna afgreiðslumál sem ekki þyrfti mikillar umræðu við eða að ástæða væri til að fetta fingur út í, lagfæringar á fyrirkomulagi sem varðar lögreglustjóra, sýslumenn og hlutverk þeirra í samræmi við þá ákvörðun og stefnu sem hefur legið fyrir.

Hér er hins vegar vakin athygli á ákvæðum í þessu frumvarpi sem fela í sér þá nýbreytni að smásala á skotflaugum og flugeldum yrði takmörkuð við þau félög sem hér hafa verið nefnd, félagasamtök sem vinna almennt að góðum málum í þjóðfélaginu, almennum góðum málum til stuðnings t.d. björgunarsveitum, íþróttafélögum og fleiri slíkum samtökum. Ég hef vissulega tilhneigingu til að mæla með og samþykkja þær breytingar enda held ég að svona frjálsum samtökum verði að vera gert kleift að halda uppi starfsemi sinni með fjáröflun af þessu tagi. Það hefur borið á því síðustu árin að einstaklingar hafi haslað sér völl á þessum vettvangi og það hefur orkað tvímælis að margra mati. Ég held að þetta sé ekki spurning um frjálshyggju eða ekki frjálshyggju, heldur er þetta bara praktísk niðurstaða og ályktun af þeirri stöðu sem upp er komin í þjóðfélaginu á þessum markaði.

Ég spyr að gefnu tilefni hvort hér sé að einhverju leyti fjallað um heildsölu enda hafa þessi frjálsu félagasamtök auk smásalanna staðið að innflutningi á þessum vörum og haft sæmilegar tekjur af þeim viðskiptum. Ég held að þetta sé angi af stærra máli sem hæstv. dómsmálaráðherra ætti líka að líta til og fara vel yfir en á öðru sviði, á markaði veðmálastarfsemi svo sem lottós, bingós og annarra slíkra leikja. Löggjafarvaldið hefur veitt leyfi til handa samtökum sem standa að góðum málum, „good causes“, veitt þeim leyfi til að hafa þessa starfsemi með höndum. Nú eru hins vegar ýmsar blikur á lofti í þeim efnum, ekki síst vegna þess að samkeppni hefur rutt sér til rúms erlendis frá og í krafti fyrirtækja sem sum hver eru jafnvel með lögheimili á Íslandi eða með starfsemi á Íslandi, hafa látið að sér kveða á þessum markaði og eru á góðri leið með að ryðja burtu þeim stoðum og þeim tækifærum sem á þessum vettvangi eru til að afla fjár til góðra mála. Ég minni í þessu sambandi og þessari umræðu á að hér er verk að vinna fyrir hæstv. dómsmálaráðherra, að bregðast við þessum nýju aðsteðjandi vandamálum svo að ég taki ekki dýpra í árinni, með lagabreytingum til að vernda samtök sem hafa tekjur sínar af þessum markaði.

Ég vek athygli á því að á hinu háa Alþingi hef ég ásamt fjórum öðrum alþingismönnum borið fram frumvarp til laga að því er varðar leyfi og heimildir um rekstur á ýmiss konar veðmálastarfsemi. Það frumvarp felur í sér hertar reglur gagnvart auglýsingum og upplýsingum um fyrirtæki sem eru að ryðja sér til rúms og eru að rústa þennan markað sem hingað til hefur haft sérstakt leyfi, og hefur enn lögum samkvæmt sérstakt leyfi til að sitja að þeirri sölu sem þar um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég hef hvorki athugasemdir við þetta frumvarp né þá viðleitni sem hér kemur fram um það að styrkja rekstur hinna frjálsu félagasamtaka sem standa fyrir góðum málefnum í samfélagi okkar.