133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef oft vorkennt hæstv. landbúnaðarráðherra að vera í núverandi ríkisstjórn því að stundum (Gripið fram í.) kemur svona félagshyggjusvipur yfir hann, reyndar ekki í ræðustól en oft úti um land. Ef hann fer og talar við bændur kemur oft félagshyggjuandlitið upp. Svo þegar hann kemur í sollinn í Reykjavík í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í.) þegar hann kemur í sollinn í ríkisstjórninni þá fær andlitið annan svip. (Gripið fram í: ... róa hann niður.)

Í umræðunni sem lýtur að því að breyta lögum um einkavæðingu á vatni vil ég benda á það enn og aftur að ég vona að lögin um einkavæðingu á vatni komi aldrei til framkvæmda (Gripið fram í.) og að við náum að skipta um ríkisstjórn til þess að svo megi verða.

Hæstv. ráðherra varð tíðrætt um hvað það gengi vel í samfélaginu. Vissulega gengur margt vel, en misskiptingin hefur líka vaxið alveg gríðarlega og ég trúi ekki að ráðherra sé stoltur af henni. Vestfirðingar, íbúar á Norðurlandi vestra, íbúar á Norðurlandi eystra og á mörgum svæðum á landinu hafa orðið að borga fórnarkostnaðinn fyrir þá stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Mér finnst það kaldhæðnislegt þegar hæstv. landbúnaðarráðherra kemur og heldur því fram að öll gæði hafi skipst jafnt og vel og allir séu vel settir, það er bara ekki svo. (GÁ: Ég sagði aldrei neitt um það.) Það skal verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að koma á jöfnuði á milli fólks, t.d. hvað varðar kjör eftir búsetu o.s.frv. en ekki sú mikla (Forseti hringir.) misskipting sem núverandi ríkisstjórn hefur innleitt í þjóðfélagið sem aldrei fyrr.