133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að mig og hv. þingmann greinir á í afstöðunni til auðlindarinnar. (Gripið fram í: Til vatnsins.) Það var einmitt það sem ég benti á og hv. þingmaður, eins og aðrir sjálfstæðismenn, hefur barist mjög hart fyrir (Gripið fram í.) að fá eignarréttinn á vatninu og fá séreignarréttinn á vatninu.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum að vatnið í sjálfu sér sé sameign okkar allra og lífið á jörðinni eigi vatnið, það sé ekki hægt að vera með séreignarrétt á því eins og ég minntist á með dæminu frá Ísrael þar sem þeir höfðu kastað eign sinni á vatnið. Að sjálfsögðu þarf síðan að stýra nýtingu þess og við erum líka með lög, vatnalögin frá 1923 kveða einmitt á um það, en þau eru ekki eignarréttarlög. Það er það sem skilur að okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og sjálfstæðismenn. Sjálfstæðismenn vilja komast yfir eignarréttinn og það er númer eitt. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum félagslega ráðstöfun á grunngildum eins og vatnsauðlindinni og við viljum binda það í stjórnarskrá að hún geti ekki verið háð neinum séreignarrétti, alveg eins og reyndar líka fiskurinn í sjónum, að hann sé ekki háður séreignarrétti. Það hefur aftur á móti verið keppikefli margra sjálfstæðismanna, að séreignarréttur væri á fiskinum í sjónum. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum að hann sé sameign okkar allra og að enginn geti kastað eign sinni á slíka auðlind. Nákvæmlega eins er með vatnið.

Við munum því berjast af alefli gegn því að vatn verði einkavætt og fært til eignarréttar þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi barist hér fyrir því að einkavæða vatnið á síðustu árum.

.