133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:40]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það er alveg hárrétt og gott að ræða um heilbrigðismál á Austurlandi nú en til okkar þingmanna kjördæmisins barst síðasta ár hálfgert neyðarkall frá Samtökum Sveitarfélaga á Austurlandi þar sem þeir báðu okkur um að ganga í lið með þeim til þess að bjarga fjárhagsvanda sem þá var viðvarandi, fjárlagahalli frá árinu 2005 og halli sem skapaðist árið 2006.

Neyðarkallið til þingmanna kjördæmisins var þannig að það var skorað á 1. þingmann kjördæmisins að kalla þingmennina saman til þess að ræða þessi mál en það var aldrei gert. Hæstv. núverandi utanríkisráðherra er skiljanlega alltaf í útlöndum og hefur ekki tíma til að gera það núna, en áhugaleysið á síðasta ári var dálítið sérstakt. Það má segja sem betur fer, því í fjáraukalögum fyrir síðasta ár var 90 millj. kr. bætt við og fjárlagahalli þess árs tekinn af og halinn frá 2005 í burtu. Það var vonum seinna. En það verður auðvitað að hafa í huga að Heilbrigðisstofnun Austurlands þjónustar fjórtán þúsund manns, í venjulegu árferði voru það níu þúsund manns en með hinum stórkostlegu og miklu framkvæmdum sem eru í gangi fyrir austan bættust um fjögur þúsund manns við. Þegar þeim framkvæmdum lýkur verður mikil og aukin starfsemi og þá vantar fjármuni.

Það verður líka að geta þess, virðulegi forseti, að á undanförnum árum hefur þjónusta verið skorin niður. Sumar stofnanir hafa ekki verið á fullum afköstum eins og t.d. sjúkrahúsið á Norðfirði þar sem m.a. hjúkrunarrými voru skorin niður vegna framkvæmda sem er sem betur fer verið að gera úttekt á í dag og þá er löngu tímabærum endurbótum við það sjúkrahús að ljúka. En það vantar stofnbúnað, það vantar starfsfólk þegar þessi deild kemur inn og þetta er ekki á fjárlögum og svörin sem þeir fyrir austan fá frá fulltrúum ráðuneytisins eru: Við munum líta á þetta með haustinu. Það verður þá að treysta á að settir verði inn fjármunir (Forseti hringir.) til þess að Heilbrigðisstofnun Austurlands geti haldið uppi sínu metnaðarfulla og góða starfi án þess að fjárskortur hamli þar för.