133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:56]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Mér fannst svör hæstv. ráðherra og þeirra stjórnarliða sem tóku til máls vera nokkuð bjartsýnni en þær raddir sem ég heyri í mínu heimahéraði, bæði hjá heilbrigðisstarfsmönnum og ekki síður hjá sveitarstjórnarmönnum og ber ekki alveg saman um fjármagn og stöðu stofnunarinnar sem nær eins og ég sagði allt frá Bakkafirði niður á Djúpavog. Mér finnst þær upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni, að bætt hafi verið við 260 millj. til stofnunarinnar við afgreiðslu síðustu fjárlaga segja okkur hve staða stofnunarinnar var erfið. Ef byggja á á stöðunni núna eins og þrengt hefur verið að þessari stofnun þá tel ég að ekki sé mikill metnaður í gangi. (Gripið fram í.) Þessi stofnun hefur sérstöðu. Þar sem farið er í jafnmiklar framkvæmdir á einu landsvæði eins og fyrir austan hefur það svæði sérstöðu því að það þarf alveg sérstaka aðgæslu til að láta heilbrigðisþjónustuna og aðra opinbera þjónustu fylgja þeim eftir.

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að efla þjónustuna í takt við íbúaþróun og íbúaspá, efla innra starf og gefa starfsmönnum kost á rannsókna- og þróunarvinnu, möguleika á að efla forvarnir og fjölga bæði starfsmönnum og starfsstéttum og auka sérfræðiþjónustu. Það er m.a. orðið mjög brýnt að ráða í stöðu lyflæknis með fasta viðveru á Héraði. Stofnunin var ekki í stakk búin að taka við því mikla álagi sem fyrirsjáanlegt var á mesta framkvæmdatíma virkjana og álvers. Þeim framkvæmdum fer nú að ljúka en fjölgun íbúa til lengri tíma heldur vonandi áfram. Samfélagið er að gerbreytast og þar með þjónustuþarfir fólks og við því verður að bregðast. Vegna þessa alls hafa bæði íbúar og samtök sveitarfélaga ásamt sérstökum sveitarfélögum ályktað og krafist úrbóta.