133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:28]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður er greinilega í miklu ójafnvægi í dag. Hann veður úr einu í annað, er mjög dónalegur og er með dylgjur og aðdróttanir. Hann reynir að gera lítið úr málflutningi manna með einhverjum ómerkilegum dylgjum í staðinn fyrir að koma með málefnalegar athugasemdir í málinu.

Hann spurði reyndar að lokum einnar spurningar sem kannski varpar ljósi á málið, hvernig við viljum koma fyrir eignarhaldinu á auðlindunum eins og vatninu. Við viljum að sjálfsögðu tryggja sameign íslensku þjóðarinnar, eins ég margtalaði um áðan, með stjórnarskrárbreytingum, með því að binda eignarhald íslensku þjóðarinnar, sameignina, á öllum hennar sameiginlegu auðlindum í stjórnarskrá. Það er stefna okkar jafnaðarmanna í sinni einföldustu mynd og það er stefnan sem nýjasta tilraunin til að breyta Framsóknarflokknum í Samfylkinguna felur einnig í sér.

Ég las í hádeginu hin 37 blaðsíðna stefnuskrárdrög Framsóknar og þeir gerðu þar mjög flotta tilraun til að breyta flokknum í Samfylkinguna 70 dögum fyrir kosningar. Eftir að hafa verið einhvers konar B-deild í Sjálfstæðisflokknum í 12 ár ætla þeir að breyta honum í Samfylkinguna, svona klassískan krataflokk, rétt fyrir kosningar. Þar hnaut ég um þetta grundvallaratriði að flokkurinn vildi tryggja sameign þjóðarinnar á öllum auðlindum. Þar tek ég undir og get gert orð ályktunar Framsóknarflokksins að mínum í svari við spurningu þingmannsins sem fer hér hamförum fyrir einkavæðingu á vatni.

Önnur vitleysa sem datt upp úr þingmanninum var að ég væri að berjast gegn nýtingu vatnsfalla til raforku. Þetta er eins og hver annar þvættingur sem tekur því varla að elta uppi en ég vil samt gera þingmanninum þann greiða að svara þessu og sýna honum þá virðingu.