133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:40]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega og drengilega ræðu, eins og hans var von og vísa. Hann er gamalreyndur úr þinginu, allt frá því að faðir minn var hér uppi. Það er gaman að kynnast honum þótt að hann hafi nú skipt um pólitískan lit. En það er auðvitað hans frelsi. (ÖS: Er það verra eða betra?) Ég tek enga afstöðu til þess því að í öllum flokkum þurfa að vera góðir menn. Flokkarnir þurfa á góðu og málefnalegu fólki að halda og hv. þm. Ellert Schram er þeirrar gerðar og hann nýtist hverjum flokki vel þar sem hann er staddur hverju sinni.

Ég vil ítreka það, af því að hv. þingmaður fjallaði ekki um það vandamál sem ég er að glíma við að reyna að koma aftur heim í hús landbúnaðarráðuneytisins og Landgræðslunnar, heldur miklu meira um auðlindir, að stefna Framsóknarflokksins er skýr. Framsóknarflokkurinn hefur sem betur fer ekki meiri hluta í þinginu, það hefur enginn flokkur gott af því. Hann þarf að berjast fyrir sínum málum. Framsóknarflokkurinn hefur haft að leiðarljósi og mun hafa það á þingi, líkt og menn hafa farið yfir drögin, að auðlindir sjávar skuli vera sameign og bundnar stjórnarskrá. Auðvitað erum við ekki að hverfa frá því. Við munum berjast fyrir því.

Þetta er alveg skýrt og þarf ekki að ræða frekar. Það munum við gera og þeir sem með þessi mál fara á vegum flokkanna. Við sjáum til hvað tíminn leiðir í ljós. Framsóknarflokkurinn er samur og jafn í stefnu sinni gagnvart þessari auðlind eins og mörgum öðrum auðlindum sem eru sameign íslensku þjóðarinnar, þar á meðal vatnið.