133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra orðaði það svo áðan í einni af sínum ágætu ræðum fyrr í dag að þetta mál snerist í reynd bara um það að aftur væru færð til landbúnaðarráðuneytisins tiltekin verkefni sem með lögum voru frá því tekin. Það er ekki hægt annað, herra forseti, en að rifja aðeins upp hinn ótrúlega aulahátt á þessu máli öllu saman.

Það mál sem við höfum verið að ræða hér tímum saman er einfaldlega til orðið vegna valdaskaks innan Framsóknarflokksins á sínum tíma. Þá var staða hæstv. landbúnaðarráðherra með þeim hætti innan Framsóknarflokksins að hann hafði ekki afl til þess að spyrna gegn þeim sem að honum sóttu, hæstv. þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem nú gegnir stöðu utanríkisráðherra. Hún seildist með miklum krafti inn fyrir múra landbúnaðarráðuneytisins og tók þetta verkefni af honum með valdi í því frumvarpi sem þrýst var í gegnum þingið í tengslum við vatnalögin. Á þessum tíma benti stjórnarandstaðan á að það væri fjarri öllu lagi að taka þessi verkefni, sem m.a. lúta að fyrirhleðslum og öðru slíku og beinast að því að halda vötnum sem flæmast yfir sand í sínum rétta farvegi. Þau ættu að sjálfsögðu heima hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Um það held ég að við séum algjörlega sammála. Efni þessa frumvarps er þess eðlis að ég sé ekki mikil efnisleg rök til að standa fast gegn því að það fari í gegn. Ég rifja það upp að stjórnarandstaðan benti á þetta á þessum tíma og ekki bara það, hún bauðst til þess að flytja þetta mál til að skáskjóta hæstv. landbúnaðarráðherra fram hjá vígjum hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, á þeim tíma. Við í stjórnarandstöðunni buðumst til þess að selflytja hæstv. landbúnaðarráðherra í skjól. Á þeim tíma töldum við það vera gustukaverk vegna þess að sótt var harkalega að honum og hann beittur afli af þeim sem þá réðu í Framsóknarflokknum.

Nú hefur hæstv. landbúnaðarráðherra aftur náð vopnum sínum. Á þessum tíma gat hann ekki þekkst boð stjórnarandstöðunnar vegna þess að honum var bannað það af þáverandi formanni Framsóknarflokksins, Halldóri Ásgrímssyni. Eins og við vitum var það stundum hlutskipti hæstv. landbúnaðarráðherra að skjótast undan eins og hræddur héri þar sem Halldór Ásgrímsson annars vegar var. Nú er hann hins vegar laus við þennan fjanda sinn og er frír og frjáls og flýgur eins og örn og dregur súg í flugnum. Nú kemur hann hingað og vill brjóta af sér hlekki hæstv. utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur og sætir færi þegar hún er stödd í annarri heimsálfu. Það er sjálfsagt að menn hjálpi honum til þess að rétta aftur hlut sinn í þessu efni.

Það er nauðsynlegt að undirstrika þessa forsögu málsins. Við erum að taka upp tíma þingsins einvörðungu vegna þess að hæstv. landbúnaðarráðherra varð undir í valdaskaki innan Framsóknarflokksins. Nú hafa þau hlutföll breyst aftur. Hæstv. landbúnaðarráðherra trónir eins og hani á haug Framsóknarflokksins og leyfir sér að vera með digrar yfirlýsingar sem bæði sneiða nokkuð af og þrengja að valdi formanns Framsóknarflokksins, sem situr mér til hægri hliðar, en neytir líka þess aflsmunar sem nú er allt í einu orðinn honum í vil og hrammsar aftur það sem Valgerður Sverrisdóttir, núverandi. hæstv. utanríkisráðherra, tók frá honum í fyrra.

Hæstv. landbúnaðarráðherra neytir líka þess afls og frelsis sem hann telur sig nú hafa eftir að hafa verið laus við þann draug sem hann þurfti áður að bera, svo ég vísi í kínverskan málshátt, og hann hefur verið hér með ákaflega digrar yfirlýsingar sem tengjast samstarfi stjórnarflokkanna tveggja. Eitt af því sem hæstv. núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra beitti sér fyrir innan Framsóknarflokksins voru sættir millum stríðandi afla í flokknum sem tókust á um sjávarútvegs- og kvótamál. Þá var það sáttargjörðin sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, hafði frumkvæði að, að vængirnir í Framsóknarflokknum sameinuðust um að koma því í kring að inn í stjórnarsáttmála yrði sett mjög afdráttarlaus yfirlýsing um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mundi beita sér fyrir því að inn í stjórnarskrána yrði sett ákvæði um þjóðareign á sjávarauðlindinni. Þetta var eitt af því sem Framsóknarflokkurinn hrósaði sér hvað mest af þegar hann endurnýjaði stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarmenn fóru um landið á þeim tíma þegar umræður voru miklu harðari um kvótakerfið og boðuðu þessa stefnu. Fólk trúði þeim og fólk kaus þá m.a. út af þessu. Þetta var eitt af því sem leiddi til þess að Framsóknarflokkurinn náði síðbúnu flugi og hélt pólitísku lífi sem dugði til þess að tosa honum inn í núverandi ríkisstjórn.

Þá er ekki nema vona að menn spyrji um efndir. Ég hef verið í þeirri nefnd sem hefur verið dregin inn í þessa umræðu, stjórnarskrárnefnd, og mér er mætavel kunnugt hvernig þessi mál voru þar. Það er algjörlega hárrétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur sagt að þar var drjúgur meiri hluti fyrir því að stjórnarskrárnefndin sameinaðist um þetta ákvæði. Þar lýstu allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar yfir stuðningi við að það yrði tekið inn í stjórnarskrána. Þá lá það jafnframt ljóst fyrir að þetta var eitt af því sem hafði verið hnykkt sérstaklega á með ályktunum á flokksstjórnarfundum og miðstjórnarfundum Framsóknarflokksins þannig að það lá alveg ljóst fyrir hver var afstaða Framsóknarflokksins. Að því leyti til var gildur meiri hluti í nefndinni og framsóknarfulltrúarnir hefðu ekki þurft nema að anda því út úr sér að þeir styddu þetta mál til þess að það hefði farið í gegn og það hefði sennilega dugað til þess að beygja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það hefur ekki verið gert.

Nú eru eftir fimm, sex virkir þingdagar og þessu mikilvæga stefnumáli Framsóknarflokksins hefur ekki verið hrint í framkvæmd. Við höfum beðið eftir því sem sitjum á hinu háa Alþingi og erum jafnframt fulltrúar í stjórnarskrárnefndinni að inn í þingið kæmi í frumvarpsformi það ákvæði sem nefndin sammæltist um. Menn hefðu þá eftir atvikum getað stutt Framsóknarflokkinn til að rétta sinn hlut í þingsölum. Það hefur ekki virst mikill vilji til þess fyrr en í dag, herra forseti. Það er ekki fyrr en í dag að varaformaður Framsóknarflokksins lýsir því yfir úr þessum ræðustóli að Framsóknarflokkurinn hyggist sjá til þess að þessu ákvæði í stjórnarsáttmálanum verði hrint í framkvæmd. Hæstv. ráðherra hnykkti á því í ræðum sínum fyrr í dag með því að segja að hann mundi beita sér fyrir að það yrði gert á þessu þingi.

Herra forseti. Þetta sætir sögulegum tíðindum vegna þess að á morgun hefst flokksþing Framsóknarflokksins. Eftir að varaformaður Framsóknarflokksins hefur lýst þessu yfir er óhjákvæmilegt annað en að formaður flokksins taki undir með honum og að Framsóknarflokkurinn samþykki það alveg skýrt á flokksþinginu á morgun að á þessu þingi verði efnt það kosningaloforð og sú yfirlýsing sem flokkarnir báðir gáfu í samstarfssáttmála sínum að ákvæði um sameiginlega þjóðareign á sjávarauðlindinni verði tekið upp í stjórnarskrá. Það var það sem hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti yfir áðan, hann var að lofa því. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ellerts B. Schrams er hæstv. landbúnaðarráðherra maður orða sinna og það er minna en 90% vatn í honum þannig að það hlýtur þá að vera meira af beinum í honum en í meðaltalsframsóknarmanninum. Þess vegna verður það að koma fram hvort hæstv. landbúnaðarráðherra var bara að gaspra og fara með orð út í loftið eða … (Landbrh.: Það er ekki líkt honum.) Það er ekki líkt honum, kallar hann fram í, og ekki ætla ég í deilur við hann um það. En það hlýtur að þýða að Framsóknarflokkurinn ætlar sér að berja í gegn á þessu þingi þessa mikilvægu breytingu á stjórnarskránni. Það liggur alveg fyrir og ég get lýst því yfir fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að hún mun styðja hann í því.

Ég verð þá hins vegar að fá það skýrt fram við þessa umræðu hvort hæstv. landbúnaðarráðherra stendur hér bara á annarri löppinni eða hvort hann hefur stuðning af formanni flokksins. Mér finnst eins og þessi umræða hefur þróast, herra forseti, að þá verði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, að koma hingað og segja alveg skýrt hvort það sé svo að Framsóknarflokkurinn muni láta Sjálfstæðisflokkinn standa frammi fyrir þessu loforði um að breyta stjórnarskránni með þessum hætti. Það verður að koma skýrt fram annars er hæstv. landbúnaðarráðherra ekki merkur orða sinna. Ég tel þess vegna að ekki sé hægt að ljúka þessari umræðu fyrst að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur gefið þessa yfirlýsingu án þess að fyrir liggi alveg skýrt af hálfu forustu Framsóknarflokksins hvort hún muni standa við yfirlýsingu Guðna Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins og hæstv. landbúnaðarráðherra, um þetta. Það er algjörlega nauðsynlegt. Þetta er eitt af helstu grundvallaratriðunum sem hafa verið í umræðunni um sjávarútvegsmál og auðlindamálin öll. Það gengur ekki að forustumenn komi hér og tali með þessum hætti án þess að innstæða sé fyrir því.

Ég vil segja það alveg skýrt að ég er ekki að halda því fram að ekki sé innstæða fyrir þessu hjá hæstv. ráðherra en hún hefur aldrei komið fram áður. Þetta er í fyrsta skipti á kjörtímabilinu sem það er sagt alveg skýrt af hálfu forustu Framsóknarflokksins að hún ætli að ná þessu fram. Það getur ekki þýtt annað en að Sjálfstæðisflokkurinn muni þá beygja sig fyrir þessum kröfum. Þessar kröfur hljóta að koma fram á þingi Framsóknarflokksins á morgun, ella er ég ansi hræddur um að lítið verði úr orðstír þess flokks og trúverðugleika og er þó kannski ekki mikið til af þeirri sortinni núna. Ég segi þess vegna, herra forseti, að ég tel óhjákvæmilegt að hæstv. landbúnaðarráðherra upplýsi þingheim um það hvort hann túlki hér einungis sína eigin persónulegu skoðun eða hvort hann sé að flytja hér þann boðskap forustu Framsóknarflokksins að hún muni krefjast þess af Sjálfstæðisflokknum að stjórnarskránni verði breytt áður en þinginu lýkur 15. mars í þá veru að sett verði nýtt ákvæði um að í stjórnarskránni verði alveg skýrt kveðið á um þjóðareign á hinum sameiginlegu sjávarauðlindum.

Ég vildi óska eftir því líka, herra forseti, sökum mikilvægis þessa máls, af því að hér er um grundvallaratriði að tefla, að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður framsóknarflokksins, staðfesti þennan skilning og ég spyr hæstv. landbúnaðarráðherra: Voru þetta bara orðin tóm? Var þetta bara sagt til að slá keilur og hugsanlega ryki í augu þeirra sem hafa efast um trúverðugleika forustu Framsóknarflokksins í þessu máli? Hæstv. landbúnaðarráðherra er maður sinna orða og vænt þætti mér um að hann staðfesti það hér að Framsóknarflokkurinn hyggist sjá til þess að þetta loforð verði efnt áður en þing er úti.