133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:45]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja þetta um hið erfiða Íraksmál sem, eins og ég hef áður getið, er nánast rætt í hverri viku. Hv. þingmaður sagði að ég hefði sagt að það hefði aldrei verið rætt í ríkisstjórn. Það liggur fyrir að Íraksmálið var margrætt í ríkisstjórn, bæði fyrir og eftir ákvarðanatöku. En það er alveg á hreinu að fyrrv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þessa ákvörðun og töldu sig hafa fullan stjórnsýslulegan rétt til þess eins og hefur verið rakið. Þeir tóku ákvörðun, kynntu hana eðlilega í ríkisstjórn á eftir og hér í þinginu, og það gerðist með þeim hætti.

Það liggur fyrir að báðir þessir miklu stjórnmálaleiðtogar eru horfnir af vettvangi, þeir eru farnir út úr íslenskum stjórnmálum. Formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson hæstv. ráðherra, hefur lýst því yfir með skýrum hætti að ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak hafi verið tekin á forsendum rangra upplýsinga og ég ítreka það og tel að það hafi komið í ljós síðar eins og mál hafa þróast. Ég gat þess á dögunum að Bandaríkjamenn hefðu einhliða sett okkur inn á þennan 30 þjóða lista og hafi í rauninni ekki haft eina einustu heimild til þess. Ég trúi því ekki að þeir hafi haft vilyrði nokkurs manns til að setja sig á þann lista því Íslendingar eru friðarþjóð. (Gripið fram í.) Ég álít að við þurfum fyrst og fremst að einbeita okkur að því að hjálpa til við uppbygginguna og að Írak nái aftur að byggja sig upp (Forseti hringir.) og þar eru sem betur fer ýmsir ágætir hlutir að gerast í dag.