133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra, formaður Framsóknarflokksins, segir að við eigum ekki að festast í fortíðinni, við eigum ekki að festast í spillingarumræðu liðinna ára, við eigum ekki að festast í Íraksstríðinu.

Hæstv. forseti. Nú er að koma að kosningum og nú vill Framsóknarflokkurinn ekki lengur horfa yfir liðið kjörtímabil og gangast við eigin verkum. Varaformaður og formaður Framsóknarflokksins verða að átta sig á því að nú er komið að uppgjöri. Nú verða menn að horfast í augu við eigin verk og menn verða að gangast við þeim. Ef þetta var einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar á sínum tíma, sem við teljum að hún hafi ekki verið, hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) krefst þá íslenska ríkisstjórnin þess ekki að við verðum formlega (Forseti hringir.) tekin út af þessum lista?